Laufey og Örn í Húsey klettarnir í ferðaþjónustunni

laufey_orn_husey_kletturinn12_web.jpg
Farfuglaheimilið í Húsey, sem Örn Þorleifsson og Laufey Ólafsdóttir reka, fékk nýverið verðlaunin „Kletturinn“ sem veitt eru af Ferðamálasamtökum Austurlands. Verðlaunin eru veitt þeim sem árum saman hafa staðið í framlínu austfirskrar ferðaþjónustu.
 
Örn hefur rekið farfuglaheimilið allt frá árinu 1981 „jafnlengi eða lengur lagt sitt af mörkum við að glæða áhuga erlendra ferðamanna á Austurlandi,“ segir í rökstuðningi fyrir veitingu ferðlaunanna. Í Húsey er einnig rekin ferðaþjónusta „þar sem einstaka náttúrufegurð, dýralíf og gestrisni er að finna og meðal annars hægt að stunda selaskoðun á hestbaki.“

„Kletturinn er veittur þeim einstaklingum sem um árabil hafa staðið í framlínu í ferðaþjónustu á Austurlandi og hafa með ósérhlífni og eljusemi stuðlað að framgangi og vexti atvinnugreinarinnar um langt árabil. Þeir eru bjargið sem ferðaþjónustan byggir á og eru öðrum fyrirmynd í að klífa örðuga hjalla til að ná handfestu á framtíðinni.“

Verðlaunin voru afhent á aðalfundi samtakanna á Eskifirði í síðustu viku. Mikil endurnýjun varð á stjórn þeirra því aðeins Albert Jónsson, Djúpavogi, varð eftir í stjórn. Díana Mjöll Sveinsdóttir, frá Tanna Travel á Eskifirði, er nýr formaður.

Ný stjórn Ferðamálasamtaka Austurlands:
Díana Mjöll Sveinsdóttir, Tanni Travel Eskifirði
Albert Jensson, Adventura Djúpavogi
Hákon Guðröðarson, Menningarfjelagið Norðfirði
Jóhann Jónsson, Austfar Seyðisfirði
Sævar Guðjónsson, Ferðaþjónustan Mjóeyri Eskifirði

Úr stjórn gengu:
Skúli Björn Gunnarsson (formaður), Skriðuklaustri Fljótsdal
Berglind Steina Ingvarsdóttir, Ferðaþjónustunni Mjóeyri Eskifirði,
Friðrik Árnason, Hótel Bláfelli Breiðdalsvík
Gunnlaugur Jónasson, Gistihúsinu Egilsstöðum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar