Óðinn hetja Leiknis: Tókum létta vítakeppni daginn fyrir leik

odinn_omarsson_web.jpg

Leiknir Fáskrúðsfirði er kominn í undanúrslit þriðju deildar karla eftir að hafa unnið Víði í garði í seinni leik liðanna í fyrrakvöld í vitaspyrnukeppni. Markvörðurinn Óðinn Ómarsson var hetja Leiknis því hann varði tvær spyrnur og skoraði úr þeirri fimmtu sem kom liðinu áfram.

 

Víðir vann leikinn sjálfan 2-1 en þar sem Leiknir vann fyrri leikinn með sömu markatölu voru liðin jöfn. Því var framlengt og þar sem ekkert var skorað þar var gripið til vítakeppni. Hana unnu Leiknismenn 2-4.
 
„Ég get nú ekki sagt að ég hafi æft þetta sérstaklega en við tókum létta vítakeppni daginn fyrir leik. Það hlýtur að hafa hjálpað eitthvað til,“ segir Óðinn aðspurður um hvort Leiknismenn hafi sérstaklega æft vítaspyrnur fyrir leikinn.

Hann segist ekkert sérhæfa sig í vítaspyrnum, dagsformið hafi ráðið úrslitum. Hann er samt ekki óvanur að taka þýðingarmiklar spyrnur. „Þetta í annað skiptið á tveimur árum sem ég tek fimmtu og síðustu spyrnuna í vítaspyrnukeppni svo ég er að verða nokkuð vanur þessu!“
 
Nokkur hamagangur varð í lokin þegar teimur Víðismönnum var vísað af leikvelli á lokamínútu framlengingar. Annar fékk sitt seinna gula spjald fyrir síðbúna tæklingu á varnarmanni leiksins, hinn kom æðandi að og hrinti einum Fáskrúðsfirðingnum. Áður hafði Leiknismaðurinn Fannar Bjarki Pétursson fengið sína aðra áminningu fyrir að negla boltanum í burtu þegar búið var að flauta brot. 
 
Leiknismenn mæta Sindra í undanúrslitunum. Fyrri leikurinn verður á Höfn á laugardag en sá seinni á Fáskrúðsfirði á miðvikudag. Óðinn segist vel stemmdur fyrir tvo erfiða leiki.

„Leikirnir leggjast mjög vel í okkur. Við förum bara í þessa leiki eins og hverja aðra leiki á móti Sindra. Þeir verða að teljast sigurstranglegri en þetta verða baráttuleikir frá byrjun til enda og leikmenn verða vera vel stemmdir fyrir leikina tvo.“
 
Huginn gerði 1-1 jafntefli við Ægi og er þar með úr leik. Seyðfirðingar mega samt vel við una, þeir leika í hinni nýju þriðju deild næsta sumar. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.