Héraðsverk ehf. lægstbjóðandi í 11 km. kafla á þjóðvegi 1 í Skriðdal.

Þriðjudaginn 19. maí sl. voru opnuð tilboð í 11 km. kafla á milli Litla Sandfells og Haugaár í Skriðdal á Fljótsdalshéraði. Átta tilboð bárust í verkið, en kostnaðaráætlun var 495 milljónir kr. Innifalið í verkinu er bygging þriggja brúa. Í fréttatilkynningu frá Héraðsverki ehf., sem var lægstbjóðandi, er fyrirtækið þrautreynt verktakafyrirtæki á Egilsstöðum og hefur yfir 20 ára reynslu í stærri verkefnum á sviði jarðvegsframkvæmda. Tilboð Héraðsverks hljóðaði upp á 65% af kostnaðaráætlun, en upp á síðkastið hafa tilboð í mjög stór verk verið á milli 50 og 60% af kostnaðaráætlun.

,,Að sögn Ágústs Ólasonar framkvæmdastjóra hjá Héraðsverki ehf. er mjög mikilvægt að rökstutt sé, hvernig fyrirtæki telji sig ráða við stór verk á innan við eða um 60% af kostnaðaráætlun. Þannig hafi Héraðsverk ehf. í þessu tilboði líkt og í tilboði vegna Raufarhafnartengingar, þar sem fyrirtækið var meðal lægstbjóðenda, getað boðið lægra en margir aðrir vegna þeirrar aðstöðu sem Héraðsverk ehf. hefur nálægt verkstað. Vegagerð ríkisins sé langstærsti verkkaupi á þessu sviði og mikilvægt að þar séu óraunhæf undirboð illra staddra fyrirtækja ekki látin keyra vel rekin fyrirtæki í þrot.

Héraðsverk var stofnað 1988 af fjölmörgum smærri verktökum á Fljótsdalshéraði og hefur frá upphafi einbeitt sér að stærri verkum, þar sem sérkunnátta hluthafa og annarra verktaka hefur fengið að njóta sín. Félagið hefur m.a. séð um gerð snjóflóðavarnargarða á Siglufirði, vegalagningu í Búlandshöfða á Snæfellsnesi auk fjölmargra stærri verkefna. Í dag eru helstu verkefni félagsins á norðausturhluta landsins, þ.e. lagning vegar milli Kópaskers og Þórshafnar (Hófaskarð og Sævarland) og nýs kafla á þjóðvegi 1 innst í Jökuldal (Arnórsstaðamúli). Verkið í Skriðdal fellur mjög vel að núverandi verkefnum félagsins. Héraðsverk ehf. vinnur skv. gæðakerfi og hlaut viðurkenningu Vinnueftirlits ríkisins 2008 sem fyrirmyndarfyrirtæki ásamt 5 öðrum fyrirtækjum og stofnunum á landinu öllu," segir í fréttatilkynningu Héraðsverks.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar