Skip to main content

Dauðir rísa ... úr gröfum Skriðuklausturs

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 23. apr 2009 08:59Uppfært 08. jan 2016 19:19

Minjasafn Austurlands, í samvinnu við Skriðuklaustursrannsóknir, opnar í dag, sumardaginn fyrsta, sýninguna ,,Dauðir rísa ... úr gröfum Skriðuklausturs.“ Sýningin  fjallar um fólkið sem grafið var á Skriðklaustri frá tímum klaustursins (1493-1554) og fram á 18. öld.  Aðstandendur sýningarinnar segja að með henni náist vonandi að kynnast örlítið hinum löngu liðna hugarheimi íslenskra miðalda og minnast fólksins sem á Skriðuklaustri var jarðað þó að lífshlaup þeirra sé enn að mestu hulin ráðgáta.

beinagrind.jpg

Á sýningunni eru m.a. sýndar teikningar af beinagrindum hinna framliðnu eins og þær lágu í gröfum sínum. Þá eru til sýnis tvær beinagrindur, kistuleifar og munir sem fundist hafa í kistum. Í tengslum við þetta var einnig gefin út sýningaskrá með fyrrnefndum teikningum. Þar má jafnframt finna greinar sem fjalla um fornleifauppgröftinn að Skriðuklaustri og niðurstöður hans sem og grein um íslenska grafarsiði og viðhorf til dauðans fyrr og nú.

 

Sýningarhönnuður er Björn G. Björnsson hjá List og Sögu ehf. sem einnig hannaði grunnsýningu safnsins, ,,Sveitin og þorpið”. Fyrir hönd Skriðuklaustursrannsókna kom að sýningargerðinni verkefnisstjórinn og fornleifafræðingurinn Steinunn Kristjánsdóttir.

 

Sýningin verður opnuð kl. 13.30. Í framhaldi af því verður dagskrá í Safnahúsinu tileinkuð sumarkomunni. Tónlistaratriði, danssýning þjóðdansafélagsins Fiðrildanna, föndursmiðja og óvæntar sumargjafir fyrir gesti.

 

 

Um kvöldið, kl. 20 mun Arndís Þorvaldsdóttir sýna myndir úr fórum Ljósmyndasafns Austurlands og Myndasafni Vikublaðsins Austra frá ýmsum bæjarhátíðum og íþróttaviðburðum á Austurlandi.