Vopnafjarðarhreppur vill funda með HSA um Sundabúð
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 09. mar 2023 11:59 • Uppfært 09. mar 2023 12:02
Sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps hefur óskað eftir fundi með Heilbrigðisstofnun Austurlands um stöðu og framtíð hjúkrunarheimilisins Sundabúðar. Heilbrigðisráðuneytið hafnaði kröfu hreppsins um að greiða 270 milljónir vegna uppsafnaðs rekstrartaps á árunum 2014-21.
Vopnafjarðarhreppur sendi heilbrigðisráðuneytinu bréf í október síðastliðnum þar sem óskað var eftir stuðningi ríkisins vegna uppsafnaðs hallareksturs. Sveitarfélagið tók við rekstrinum af HSA árið 2013.
Eftir niðurskurð á fjárlögum haustið 2010 lögðu þáverandi stjórnendur HSA til að hjúkrunarheimilinu yrði lokað. Reksturinn hafið þá verið þungur lengi. Því mótmæltu Vopnafirðingar því þá yrðu eldri borgarar fluttir hreppaflutningum auk þess sem stór vinnustaður hyrfi úr byggðalaginu.
Í bréfinu síðan í haust er því lýst af hálfu Vopnafjarðarhrepps að hann hafi tekið við rekstri Sundabúðar til að tryggja að þjónusta við eldri borgara héldist í heimabyggð. Þar hafi verið slíkir hagsmunir að sveitarfélagið hafi neyðst til að taka reksturinn að sér en hvorki verið vilji né skilningur sveitarstjórnar að með yfirtökunni væri hreppurinn að taka á sig fjárhagslega ábyrgð hjúkrunarheimilisins enda reksturinn ekki meðal lögbundinna hlutverka sveitarfélagsins.
Uppsafnað tap 270 milljónir
Þar kemur fram að uppsafnað rekstrartap Sundabúðar á árunum 2014-12 sé 270,7 milljónir eða 18-56 milljónir á ári, mest árin 2019 og 2020. Árin 2018, 20 og 21 lagði Vopnafjarðarhreppur Sundabúð til sérstakt framlag upp á samtals 282 milljónir.
Ríkið greiðir daggjöld sem miðast meðal annars við nýtingu þeirra rýma sem í Sundabúð eru. Þar eru núna 11 hjúkrunarrými, þar af eitt sem skilgreint er sem sjúkra- og endurhæfingarrými en því fylgja sérstakar álagsgreiðslur. Nýting rýmanna sveiflast milli mánaða, var 64,5% að meðaltali árið 2019 en 51-73% eftir mánuðum. Hvíldarinnlagnir spila inn í nýtinguna. Tekjurnar duga ekki fyrir lágmarksmönnum Sundabúðar.
Vopnfirðinga lýsa samningi, sem gerður hafi verið við ríkið í lok árs 2019, sem neyðarlendingu af sinni hálfu. Þeir samningar hafi hins vegar hvorki tekið á bótum fyrir fyrri ár né á rekstrinum til framtíðar. Hreppurinn krefur heilbrigðisráðuneytið um að tryggja nægt fjármagn til að mæta kröfum sem gerðar eru til reksturs hjúkrunarheimila. Þá vill hreppurinn 270 milljónir frá ríkinu vegna tapsins 2014-21 og áskilur sér rétt til að gera frekari kröfur þegar lokaniðurstaða ársins 2022 liggur fyrir.
Engin ákvörðun tekin
Heilbrigðisráðuneytið svaraði bréfinu í lok janúar og hafnaði þar kröfum Vopnafjarðarhrepps. Í svarinu er bent á að greitt sé eftir samningum Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og Sambands sveitarfélaga við Sjúkratrygginga. Í samræmi við þá hafi Sundabúð fengið sérstakt smæðarálag og viðbótarsmæðarálag undanfarin ár. Eins hafi milljarði verið bætt til rekstrar hjúkrunarheimilanna í landinu haustið 2021 eftir skýrslu um rekstur þeirra.
Bréfinu lýkur á þeim orðum að vilji Vopnafjarðarhreppur segja upp samningnum verið Heilbrigðisstofnun Austurlands falið að taka við rekstrinum. Á síðasta fundi sveitarstjórnar var ákveðið að óska eftir fundi með stjórnendum HSA.
Axel Örn Sveinbjörnsson, oddviti Vopnafjarðarhrepps, segir að ekki hafi enn borist svar um hvenær hægt verði að halda fundinn. Hann segir enga ákvörðun liggja fyrir um framtíðina, tilgangurinn með fundinum sé að fara yfir stöðuna. „Við teljum ekki jafnt gefið í þessum málum. Hvernig stendur á að við getum ekki rekið okkar hjúkrunarheimili en HSA virðist geta rekið sín,“ segir hann.
HSA rekur í dag fimm hjúkrunarheimili: Í Neskaupstað, á Egilsstöðum, Seyðisfirði, Eskifirði og Fáskrúðsfirði. Stofnunin tók við tveimur síðastnefndu heimilunum vorið 2021 eftir að Fjarðabyggð sagði upp samningi sínum við ríkið þar sem sveitarfélagið taldi greiðslur með þeim ekki duga fyrir rekstrinum.