Vonast til að íbúðakjarni verði tilbúinn fyrir lok árs
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 06. apr 2022 13:48 • Uppfært 06. apr 2022 13:50
Forsvarsmenn Bæjartúns íbúðafélags, sem áformar byggingu átta íbúða kjarna fyrir 50 ára og eldri, vonast til að kjarninn verði tilbúinn fyrir lok þessa árs. Margvísleg vandamál hafa valdið því að verkið hefur tafist.
Fulltrúar Bæjartúns voru eystra í gær til að skoða aðstæður og ræða við mögulega verktaka. „Þetta lítur vel út.
Með öllum fyrirvörum þá vonumst við til að geta komið verkefninu af stað í þessum mánuði. Ef ekkert kemur upp á þá er vonandi hægt að reisa húsin síðsumars eða í haust og klára þau á árinu,“ segir Tryggvi Harðarson, framkvæmdastjóri Bæjartúns og fyrrum bæjarstjóri á Seyðisfirði.
Á íbúafundi í byrjun desember töluðu fulltrúar fyrirtækisins um að jarðvegsframkvæmdir ættu að hefjast í þeim mánuði, húsin að vera framleidd í mars og reist nú í apríl. Framkvæmdir eru ekki enn hafnar.
Ýmsir örðugleikar
„Það hafa komið upp ýmsir örðugleikar sem hafa tafið verkið. Það er þungt í vöfum að ganga frá öllum lausum endum í svona verkefni en við teljum okkur vera búna að ganga frá þeim nú. Við eigum eftir að semja endanlega við jarðvegsverktaka um að taka grunninn og fylla í hann. Ef það tekst núna í apríl þá á þessi áætlun að geta gengið eftir.“
Aðspurður kvaðst Tryggvi ekki getað farið nánar úti í vandamálin en ítrekaði að margir aðilar kæmu að verkinu, bæði Bæjartún og verktakar og undirverktakar en líka opinberir aðilar sem fjármagna húsið á hluta.
Veðrið í vetur hjálpaði ekki til auk þess sem mikil eftirspurn nú er eftir húsnæði í Evrópu vegna flóttafólks frá Úkraínu og nóg að gera hjá verksmiðjum. Þótt tíminn í framleiðslunni hafi ekki gengið eftir nú í mars eigi að vera hægt að koma þeim málum hratt af stað á ný. Þá er ekki heldur enn staðfest hvar þeir sem smíða húsin dvelja meðan vinnunni stendur.
Erfiðari lóð
Í gær var tekið fyrir í byggðaráði Múlaþings erindi frá Bæjartúni þar sem óskað var eftir því að sveitarfélagið taki að sér jarðvegsskipti á lóðinni. Ráðið fól starfsmönnum að fara yfir málið með fulltrúum Bæjartúns.
Tryggvi rifjar upp að horft hafi verið á nokkrar mismunandi staðsetningar fyrir kjarnann en meðal annars þurft að endurskoða þær vegna ofanflóða. Að lokum hafi verið sæst á staðsetningu á gamla íþróttavellinum en sú lóð sé óhentugt því þar sé langt niður á fast sem auki kostnað. Þess vegna hafi verið óskað eftir samvinnu við Múlaþing og sé ýmislegt opið í eim efnum.
„Við erum að leita leiða til að byggja húsin. Fjárhagsramminn er knappur, við getum ekki velt kostnaðinum yfir í íbúðaverðið því skilyrði ríkisins fyrir fjármögnun er ákveðið hámarksverð á húsunum,“ útskýrir Tryggvi.