Skip to main content

Vegurinn yfir Öxi með þeim hættulegri á landinu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 31. maí 2023 10:51Uppfært 31. maí 2023 10:51

Vegurinn yfir Öxi er sá vegur í dreifbýli hérlendis þar sem flest slys og óhöpp verða miðað við ekna kílómetra.


Þetta kemur fram í árlegri skýrslu Samgöngustofu yfir umferðarslys á Íslandi. Skýrsla fyrir árið 2022 kom nýverið út. Þar eru bæði að finna almenna tölfræði um umferðaróhöpp á Íslandi en líka greiningu á hættulegustu vegahlutunum.

Vegurinn yfir Öxi hefur ofarlega í skýrslum undanfarinna ára yfir þá veghluta í dreifbýli þar sem flest slys og óhöpp verða miðað við ekna kílómetra. Í skýrslu ársins er reiknað út frá síðustu fjórum árum, það er að segja 2018-2022.

Á þessum árum urðu 20 slys eða óhöpp á Öxi eða 7,73 á hverja 1000 bíla sem fóru um þennan 12 km langa kafla. Annars vegur á Austurlandi er á þessum vafasama topplista, vegurinn um Kambanesskriður með 3,26 slys á hverja 1000 bíla á kílómetra.

Axarvegur hefur verið ofarlega á listanum síðustu ár, þó ekki alltaf efstur. Þegar eldri skýrslur eru skoðaðar sést að tíðni umferðaróhappa þar breytist ekki mikið. Hins vegar virðist mikill árangur hafa náðst í að fækka slysum á öðrum vegum sem voru ofarlega. Í skýrslunum fram til ársins 2020 var vegurinn út í Húsey um Hróarstungu gjarnan efstur en vegirnir til Borgarfjarðar og loks upp í Stuðlagil þar á eftir.

Vegirnir sem teljast hættulegastir á eftir Öxi eru mun umferðarþyngri. Er þar annars vegar um að ræða Elliðavatnsveg við Reykjavík, hins vegar Veigastaðaveg rétt við Akureyri. Elliðavatnsvegurinn er einnig annar á lista veghluta í dreifbýli þar sem flest slys með meiðslum eru miðað við ekna kílómetra en þau verða flest á Siglufjarðarvegi. Hættulegasti kaflinn á Austurlandi miðað við þann lista er vegurinn yfir Fjarðarheiði, sem jafnframt er sá sjöundi á landsvísu með 0,8 slys með meiðslum á hverja 1000 bíla á kílómetra.

Almennt er það svo að umferðarþyngstu vegirnir í og við höfuðborgina eru þeir þar sem flest slys eða óhöpp verða. Fram kemur að íbúar Grindavíkur og Ísafjarðar séu þeir sem helst slasast í umferðinni.

Á Austurlandi urðu 47 slys með meiðslum í fyrra, þar af 38 með litlum meiðslum en átta alvarleg auk eins banaslyss. Það varð þegar fótgangandi varð fyrir lyftara á Djúpavogi. Fimm alvarlegu slysanna urðu utan þéttbýlis en hin á Egilsstöðum, Reyðarfirði og Höfn. Alls slösuðust 64 einstaklingar í þessum slysum, þar af 38 minniháttar.

Settur er sá fyrirvari að líkur eru á að slys með minniháttar meiðslum séu vantalin. Samkvæmt lögum skal ávallt kveða til lögreglu þegar meiðsli verða á fólki í umferðarslysum en brestur er á því þegar meiðslin eru smávægileg og því líkur á vanskráningu.