Veginum um Fannardal lokað klukkan 11 vegna hreinsunar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 19. jún 2025 10:22 • Uppfært 19. jún 2025 11:06
Veginum milli Norðfjarðar og Eskifjarðar, sem liggur upp Fannardal og í gegnum Norðfjarðargöng, verður lokaður í um tvo tíma frá klukkan ellefu vegna hreinsunar eftir eldsvoða sem varð á svæðinu í gær.
Leiðin var lokuð í rúman klukkutíma í gær eftir að eldur kom upp í vörubíl sem var þar að mála veginn. Eldur kom upp í bílnum skammt fyrir ofan brúna yfir Norðfjarðará, í um 2,5 km fjarlægð frá göngunum.
Um klukkan ellefu verður bíllinn hífður af staðnum og síðan þrifið undan honum. Reiknað er með að það taki um tvo tíma. Á þessum tíma verður leiðin lokuð.
Þrifið var í kringum bílinn strax eftir að slökkvistarfi lauk í gærkvöldi. Lækkaður hámarkshraði er samt í gildi á um rúmlega hálfs kílómetra kafla í kringum bílinn. Útlit er fyrir að lægri hraði verði í gildi næstu daga. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni á Reyðarfirði á meðal annars eftir að meta skemmdir á veginum.
Slökkvistarf hefði orðið mun erfiðra inni í göngunum
Um borð í bílnum var mikill eldsmatur: um 3000 lítrar af olíu og aðrir 3000 lítrar af málningu, fyrir utan glussa og dekk. Bíllinn varð því alelda á svipstundu. Bílstjóranum tókst að komast út og reyndi að slökkva í með dufttæki en átti ekki möguleika gegn eldinum.
Slökkvibílar komu bæði frá Reyðarfirði og Neskaupstað. Sprautað var froðu á bílinn úr byssum sem eru framan á slökkvibílunum og þannig náðist fljótt tök á eldinum, að sögn Ingvars Georgs Georgssonar, slökkvistjóra. Varlegt var að fara nær vegna sprengihættu frá tönkunum.
Vakt var á svæðinu fram eftir kvöldi og tíma tók að slökkva í síðustu glæðunum auk þess að kæla niður minni rými. Verktakar komu til að tæma olíutanka bílsins þar sem olía var farin að leka af bílnum.
Eldsupptök eru ekki ljós en fyrsti grunur beinist að kyndurum, sem halda olíu heitri sem aftur tryggja að málningin sé heit og þar með það þunn að hægt sé að sprauta henni á veginn.
Óhappið varð utan vatnsverndarsvæðis og eins utan ganganna, sem þykir mildi. Slökkvilið Fjarðabyggðar hefur æft viðbrögð við eldsvoðum í göngunum en Ingvar Georg segir að í gær hefði slökkviliðið átt erfitt með að komast að bílnum frá Eskifirði. Vindur stóð upp Fannardal Norðfjarðarmegin og svartur reykur hefði þar með borist upp göngin.
Mynd: Slökkvilið Fjarðabyggðar