
Vara við rafmagnstruflunum sunnan Djúpavogs næstu daga
Rarik varar við að rafmagnstruflanir geti orðið í Hamars- og Álftafirði næstu daga vegna seltu á raflínum. Búið er að finna leið framhjá bilun sem olli rafmagnsleysi á Djúpavogi í dag.Rafmagnið fór út í um klukkutíma á Djúpavogi í dag en komst aftur á um hálf fimm í dag. Loftlína og ekki er hægt að gera við hana fyrr en veðrið á þessum slóðum gengur niður. Þess í stað var tengt framhjá biluninni.
Rarik gaf í morgun frá sér viðvörun vegna mögulegra rafmagnstruflana í Hamars- og Álftafirði næstu daga. Þar situr salt á raflínum eftir sjórok síðustu daga. Slíkar aðstæður eru þekktar, einkum í Hamarsfirði.
Ekki er unnt að hreinsa línurnar og meðan ekki rignir situr seltan á línunum.
Viðgerð í Norðurdal í Breiðdal var frestað í dag vegna veðurs. Til stendur að fara í hana á morgun og er búist við rafmagnsleysi þar milli klukkan 10-13.
Hvassviðrið sem hrellt hefur Austfirðinga síðan á laugardagskvöld virðist ætla ganga hægar niður en búist var við. Björgunarsveitir á Norðfirði, Reyðarfirði, Seyðisfirði og Djúpavogi hafa verið að störfum eftir hádegi í dag. Jafnvel er heldur að bæta í syðst á svæðinu, meðalvindhraði í Hamarsfirði frá því rúmlega þrjú í dag hefur verið um 30 m/s og hviður þar slegið í 55 m/s. Vindmælirinn við Streiti virðist hafa fengið nóg upp úr hádegi í dag.