Valdimar O. Hermannsson ráðinn verkefnastjóri á Vopnafirði

Valdimar O. Hermannsson, fyrrum formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, hefur verið ráðinn til Vopnafjarðarhrepps tímabundið sem verkefnastjóri sveitarstjórnar.

Frá þessu var gengið á fundi sveitarstjórnar í síðustu viku. Valdimar þekkir vel til á Austurlandi og austfirskum sveitarstjórnarmálum.

Hann var í bæjarstjórn Fjarðabyggðar frá 2006-18, þar af oddviti Sjálfstæðisflokksins 2006-10. Hann var formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi 2010-14. Hann gegndi ýmsum öðrum trúnaðarstörfum, var meðal annars formaður Austurbrúar um tíma og Heilbrigðisnefndar Austurlands.

Hann var rekstrarstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands í Neskaupstað í 12 ár og síðar rekstrarstjóri Brammer.

Árið 2018 var Valdimar ráðinn sveitarstjóri Blönduósbæjar. Hann gegndi því starfi þar bil bærinn sameinaðist Húnavatnshreppi árið 2022 svo úr varð Húnabyggð. Hann hefur langa reynslu af verkefnastjórn, rekstri og leiðtogaþjálfun. Ráðningarsamningur hans gildir frá og með deginum í dag og út maí.

Talsverðar deilur urðu um ráðninguna á fundi sveitarstjórnar. Minnihluti Vopnafjarðarlistans lýsti efasemdum um lögmæti fundarins og bókaði gagnrýni á að verkefnastjóri væri ráðinn áður en umsóknarfrestur um stöðu sveitarstjóra rennur út. Þar segir að gagnrýnin beinist aðeins að vinnubrögðum meirihlutans, ekki einstaklingnum.

Í byrjun mars var gengið frá samkomulagi við Söru Elísabetu Svansdóttur um starfslok en hún hafði þá verið sveitarstjóri í fjögur ár. Axel Örn Sveinbjörnsson, oddviti, tók tímabundið við verkefnum sveitarstjóra. Ákveðið var að auglýsa eftir sveitarstjóra og fór sú auglýsing í loftið 20. mars með umsóknarfrest til 11. apríl.

Í henni er óskað eftir einstaklingi með menntun og reynslu sem nýtist í starfi, farsæla reynslu af stjórnun og rekstri, leiðtogafærni, hæfni í mannlegum samskiptum, áhuga á uppbyggingu samfélagsins, ímynd þess og velferð íbúa. Þekking á sveitarstjórnarmálum og opinberri stjórnsýslu er talin kostur og æskilegt að sveitarstjórinn komi til með að búa á Vopnafirði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.