Skip to main content

Upplýsingarnar hefðu getað komið fyrr en engin hætta fyrir fólk af efninu frá höllinni

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. ágú 2025 11:54Uppfært 22. ágú 2025 13:11

Íbúar í nágrenni Fjarðabyggðarinnar urðu undrandi í byrjun vikunnar þegar þeir voru beðnir um að leggja bílum sínum annars staðar næstu vikurnar til að forðast lakkskemmdir á meðan gert er við þak hússins. Formaður bæjarráðs segir um ýtrustu varúðarráðstafanir að ræða og segir að fólki í nágrenninu stafi ekki hætta af efnunum sem notuð eru.


Viðgerð á ryði í þaki hallarinnar hóf í síðustu viku en þær felast í fyrsta lagi í því að grunnur er borinn ofan í ryðið, síðan sprautað yfir það kvoðu til einangrunar og loks lögð yfir það plastkápa. Eftir því sem næst verður komist hefur vinnan farið vel af stað en æskilegt lægt er að þurrt og lygnt sé í veðri, enda er unnið fram eftir á daginn.

Íbúar í nágrenni Fjarðabyggðarhallarinnar, þar með talið þeir sem búa í fjölbýlishúsunum við Melgerði, fengu í byrjun vikunnar beiðni um að leggja bílum sínum annars staðar meðan framkvæmdir standa yfir. Það er vegna þess að efnin sem sprautað er á höllina geta skemmt lakk bílanna.

Óvæntar vindhviður skapa mestu hættuna


Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs, segir viðvörunina snúast um að lágmarka tjón sem geti orðið við verstu mögulegur veðuraðstæður. Með því á hann við skyndilegar vindhviður sem erfitt er að sjá fyrir í veðurspám og gætu feykt efnunum út frá þakinu. Ekki stendur til að úða á þakið í miklum vindi eða þegar veðurspár eru tvísýnar.

Búið er að setja skilrúm sem hindra umferð í kringum Fjarðabyggðarhöllina en Ragnar segir að almennt sé óhætt að vera á ferðinni úti við hana. „Það er búið að fara ítarlega yfir þessi efni, þau eru samþykkt af bæði Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og slökkviliði og þau eru ekki varasöm. Það er engin hætta á ferðum.“

Fyrst og fremst varúðarráðstöfun


Fasteignaeigendur hafa spurt hvort efnin geti skemmt þeirra hús. Á skýringamynd frá Fjarðabyggð er miðað við að efnin geti borist 50 metra út frá þakendunum. Ragnar segir að ef eitthvað komi upp á í tengslum við verkið verði farið yfir það. „Ef það verður tjón á einhverju öðru en bílum þá þarf að bregðast við því. Verktakinn ber ábyrgð á framkvæmdinni.

Þau skilaboð sem send voru út eru allra mesta varúð og ráðstöfun sem talin er þörf á. Verktakinn leggur mikla áherslu á að ganga hratt til verks, er með öflugan flokk til að nýta veðrið sem best og klára það á sem stystum tíma.“

Engar tilkynningar um tjón hafa enn borist. „Ég talaði við íbúa í gær í blokkunum sem sagðist ekki hafa orðið var við neitt ryk eða efni frá þakinu.“

Upplýsingagjöfin hefði getað verið betri


Íbúar hafa einnig gert athugasemdir við skipulag verksins í kjölfar tilkynningarinnar. Vikum saman hafi legið fyrir að það væri í aðsigi en þeir aðeins fengið tilkynninguna eftir að verkið var hafið. Ragnar segir það réttmæta gagnrýni.

„Tilkynningin kom bæði seint og hefði mátt vera ítarlegri. Á móti þá var ekki búist við að efnunum yrði úðað á akkúrat á þessum tímapunkti þannig við urðum að bregðast við. Það er verið að nýta veðrið til að ganga hraðar til verks.“

Æfingar yngri flokka og FHL færðar


Plastdúkur hefur verið settur á gervigrasið í höllinni til að verja það og hún er ónothæf til íþróttaiðkunar á meðan framkvæmdum stendur. Knattspyrnuæfingar yngri flokka voru fluttar á Eskifjörð og Fjarðabyggð reyndi að laga rútuferðir að þeim.

Reynt var að flytja síðasta leik úrvalsdeildarliðs FHL, sem var tveimur dögum áður en vinnan hófst, en það var ekki hægt. Liðið æfir í Neskaupstað og á Héraði meðan höllin er lokuð. Liðið á heimaleik laugardaginn 30. ágúst. Ekki hefur verið staðfest hvar hann verði leikinn en helst hefur verið horft á Neskaupstað. Næsti heimaleikur þar á eftir er 14. september en þá er vonast til að framkvæmdum verði lokið.