Skip to main content

Umboðsmaður hvetur til þess að lög og framkvæmd um smölun ágangsfjár verði yfirfarin

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. júl 2025 14:21Uppfært 16. júl 2025 14:22

Umboðsmaður Alþingis hefur ritað þremur ráðuneytum bréf með hvatningu um að skoða hvort reglur um smölun ágangsfjár og framkvæmd þeirra samræmist þeim vilja sem í lögunum er. Tilefnið var kvörtun landeiganda undan synjun lögreglustjórans á Austurlandi á að smala fé þegar sveitarfélag frestaði því. Bæði umboðsmaður og dómsmálaráðuneytið staðfestu ákvörðun lögreglunnar.


Lagaákvæðið sem öll deilan snýst um er 33. grein laga nr. 6/1986 um afréttarmál og fjallskil. Samkvæmt henni ber sveitarstjórn að grípa inn í sé ágangur af búfé, annað hvort sem hefur átt að vera í heimahaga, eða verið vanrækt að keyra á fjall.

Síðasta athugasemd umboðsmanns var birt á vef embættisins nýverið en hún kemur úr bréfum sem rituð voru í lok febrúar. Umboðsmaður hefur undanfarin ár bent á stöðu laganna en lykilálit hans er frá árinu 2022 um að sveitarfélög séu skyldug til að smala fénu.

Ekki nýtt að sveitarfélögin séu treg í taumi


Í nýjasta bréfinu er meðal annars vísað til þess að við gerð laganna árið 1986 hafi verið horft til ákvæða gamalla lögbóka um að beit í annars haga sé óheimil og landeigendur eigi ekki að þurfa að þola ágang annarra í sínum haga, nema samkvæmt samningi eða hefð. Hægt sé að setja gæsluskyldu á eigendur búfjár, liggi ekki fyrir samkomulag eða sveitarsamþykkt.

Í greinargerð með lögunum frá 1986 segir að þótt ákvæðið sé hart sé það óhjákvæmilegt. Árið 1997 var því bætt við í reglur að hægt væri að óska liðsinnis lögreglustjóra. Það var gert því illa hafði gengið að fá sveitarfélögin til að smala.

Í bréfinu, sem sent er til dómsmálaráðuneytis, atvinnuvegaráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, segir umboðsmaður að sér virðist sem enn sé erfitt að fá sveitarstjórnirnar til að smala.

Lögreglan fyrst og fremst í eftirliti?


Umboðsmaður rekur að ágangur geti skemmt gróður, valdið ónæði eða tjóni á eignum. Vilji laganna sé til að féð sé fjarlægt sem fyrst. Miðað við aðrar lagagreinar sem vísað er til í bréfinu má ráða að umboðsmaður telji lögin annað hvort gölluð eða að í þeim séu of margar gloppur þannig að verkefni falli á milli aðila.

Tilefni málsins er kvörtun landeiganda frá árinu 2023 sem krafði sveitarfélag um smölun. Honum var hafnað af fjallskilanefnd, sem taldi lög og túlkanir um þau misvísandi, en bæjarráð sveitarfélagsins frestaði afgreiðslu.

Landeigandinn óskaði þá liðsinnis lögreglu sem ákvað að gera ekkert þar sem málið væri í farvegi frá sveitarfélaginu og því ekkert sem benti til að það sinnti ekki skyldu sinni. Lögreglustjórinn taldi sitt hlutverk fyrst og fremst felast í að tryggja að sveitarfélagið hefði fundið málinu viðeigandi farveg.

Umboðsmaður spyr hvort lögin og framkvæmd þeirra séu eins og lagt var upp með


Dómsmálaráðuneytið staðfesti niðurstöðu lögreglustjórans eftir að landeigandinn skaut málinu þangað. Í úrskurði ráðuneytisins segir meðal annars að það sé ekki á forræði þess að fylgjast með vinnu sveitarstjórna. Það sé gert innan innviðaráðuneytisins.

Landeigandinn skaut þeirri afgreiðslu til umboðsmanns sem komst að sömu niðurstöðu. Hann segir að ekki hafi verið fullreynt að sveitarfélagið sinnti ekki skyldu sinni og ekki sé annað að sjá en málið hafi verið í farvegi. Hann telur þó að lögreglustjórinn hefði getað gengið lengra í að uppfylla rannsóknarskyldu sína, svo sem með að því biðja um upplýsingar um stöðu málsins, til dæmis hvenær málið yrði afgreitt.

Sem fyrr segir varð málið hins vegar til þess að umboðsmaður ákvað að ýta á ráðuneytin að skoða hvort tiltekin ákvæði í lögum um afréttarmálefni og fjallskil þjóni þeim tilgangi sem löggjafinn hafi ætlast til og framkvæmd þeirra sé eftir því.