Skip to main content

Tvöföldun veiðigjalda í Fjarðabyggð

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. maí 2025 11:36Uppfært 06. maí 2025 11:36

Veiðigjöld í Fjarðabyggð tvöfaldast verði frumvarp atvinnuvegaráðherra um breytingar á lögum á veiðigjaldi samþykkt óbreytt. Frumvarpið var formlega lagt fram í síðustu viku. Í greinargerð með því er nú að finna mat á áhrifum á einstök sveitarfélög.


Drög að frumvarpinu voru birt í lok mars og veitt rúm vika til athugasemda við þau. Sjávarútvegssveitarfélög, meðal annars Fjarðabyggð, gagnrýndu að ekki væri metin áhrif á sveitarfélög og töldu það jafnvel brjóta í bága við lög.

Í greinargerð er reynt að áætla áhrif á einstök byggðarlög með að rekja hversu mikið veiðigjaldið hækkar hlutfallslega í hverju sveitarfélagi. Í tveimur sveitarfélögum er um að ræða tvöföldun eða 100% hækkun. Annað þeirra er Fjarðabyggð, hitt er Hornafjörður.

Það stemmir við útreikninga sem meðal annars komu fram í minnisblaði forstjóra Síldarvinnslunnar til Kauphallarinnar, þar sem veiðigjöld úr Fjarðabyggð voru áætluð 2,7 milljarðar í ár miðað við óbreytt lög en um 5 milljarðar með þeim.

Mikil hækkun á uppsjávartegundum


Hækkun veiðigjalds á makríl eru veruleg og umdeild. Forsendur íslenska ríkisins byggja á norskum verðum sem íslenskar útgerðir hafa sagt ósamanburðarhæf vegna náttúrulegra aðstæðna og veiðiaðferða. Makríllinn hefur einkum verið nýttur af austfirskum útgerðum.

Vopnafjarðarhreppur er meðal þeirra sveitarfélaga þar sem hækkun veiðigjalda er áætluð 70-79%. Í Múlaþingi er hækkunin áætluð 50-59%. Útreikningarnir byggja á hvar útgerð sem greiðir veiðigjald er með heimilisfesti. Skýrir það hvers vegna byggðalög með litla útgerðarsögu, á borð við Garðabæ og Hveragerði, eru með hækkun veiðigjalda upp á 80-89%.

Veruleg hækkun frítekjumarks


Ekki verður sagt að greiningin á byggðarlögin sé sérlega djúp. Ráðuneytið skýrir það með því að ekki sé um að ræða skattlagningu á sveitarfélögin sjálf, heldur fyrirtæki sem þar starfi. Ákveði fyrirtæki að fækka störfum þannig að útsvarstekjur skerðist sé það ákvörðun á viðskiptalegum forsendum, ekki vegna breytinga á veiðigjaldi.

Ráðuneytið heldur því enn fremur fram að frumvarpið hafi ekki í för með sér verulega neikvæð áhrif á rekstrarumhverfi fyrirtækjanna og vísar þar til að hagnaður þeirra skerðist ekki mikið. Hins vegar er reynt að koma á móts við minni útgerðir með verulegri hækkun frítekjumarks, sem er nú er komið upp í 40% af fyrstu 50 milljónum álagningar fyrri þorsk og ýsu.

Gagnrýna hversu hratt málið er keyrt áfram


Skammur tími til umsagnar var gagnrýndur þegar drögin voru í samráðsgáttinni. Því var meðal annars svarað með því að annað tækifæri gæfist til umsagnar meðan málið yrði í meðferðum þingsins. Ekki er ljóst hver fresturinn verður til umsagna þar en fyrsta umræða um málið fór fram í gær og stóð í 8,5 tíma, eða til miðnættis.

Áður hafði Jens Garðar Helgason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins úr Norðausturkjördæmi í þingræðu gagnrýnt bæði hversu hratt breytingarnar ættu að fara í gegnum Alþingi og síðan að koma til framkvæmda. Hækkunin yrði á nokkrum mánuðum en ekki árum eins og forsvarsfólk ríkisstjórnarinnar hefði boðað í kringum kosningar og stjórnarmyndun.

Eydís Ásbjörnsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar úr kjördæminu, sagði í annarri ræðu að hún hefði í ferð um Austfirði í byrjun apríl skynjað velvilja í garð ríkisstjórnarinnar, þar með talið til hækkunar veiðigjalda. Þar boðaði hún að frítekjumarkinu yrði breytt frá því sem það var í drögunum.