Skip to main content

Þrjár verslanir Samkaupa á Austurlandi orðnar að Kjörbúðum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. des 2016 18:45Uppfært 06. des 2016 18:46

Unnið er að því að breyta verslunum Samkaupa sem reknar hafa verið undir merkjum Strax og Úrvals í Kjörbúðirnar. Búið er að breyta þremur verslunum af fimm á Austurlandi.


Síðasta föstudag nóvember voru breyttar búðir opnaðar á Fáskrúðsfirði og Seyðisfirði og fyrir helgi var búðin á Eskifirði opnuð eftir breytingu.

Samkaup tók við verslunum Kaupfélags Héraðsbúa þegar KHB leitaði nauðasamninga árið 2009. Samkaup rekur í dag sex búðir á Austurlandi, Nettó á Egilsstöðum og fimm verslanir Samkaupa.

Eftir er að breyta verslununum á Norðfirði og Djúpavogi. Það á að gerast í byrjun næsta árs. Alls þarf að breyta um 30 verslunum um land allt.

Breytingarnar eru gerðar í kjölfar viðamikillar viðhorfskönnunar meðal um 4000 viðskiptavina Samkaupa og útkoman varð kjörbúðin.

Kjörbúðinni er ætlað að þjónusta bæjarbúa með því að bjóða gott úrval, lágt verð og ferskar vörur á hverjum stað. Með því vill Samkaup gera viðskiptavinum sínum um allt land kleift að versla daglega allar helstu nauðsynjavörur á samkeppnishæfu verði, að því er fram kemur í tilkynningu.

Við opnunina á Eskifirði. Frá vinstri: Ómar Valdimarsson framkvæmdarstjóri Samkaupa, Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri Fjarðabyggðar, Þórey Mjöll Fossberg Óladóttir verslunarstjóri á Eskifirði, Eydís Ásbjörnsdóttir bæjarfulltrúi og Gunnar Egill Sigurðsson forstöðumaður verslunarsviðs Samkaupa. Mynd: Gungör Gunnar Tamzok