Orkumálinn 2024

Stefna á að opna íbúðakjarna næsta sumar

Stefnt er að því að opna íbúðakjarna á Seyðisfirði í byrjun ágúst á næsta ári. Lítið hefur hreyfst í framkvæmdum þar sem fótboltavöllur Seyðfirðinga stóð áður þótt lóðum hafi verið úthlutað þar fyrir mánuðum síðan.

„Það er ekki að neita því að það eru vonbrigði að ekki hafi hraðar að byggja upp á vellinum, þótt sveitarfélagið hafi reynt að hraða sinni vinnu eins og kostur er,“ sagði Stefán Bogi Sveinsson, formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings í upphafi íbúafundar fyrir Seyðfirðinga í síðustu viku. Fundurinn var haldinn til að kynna stöðu margvíslegra framkvæmda á staðnum.

Langt niður á fast

Þar fór Ómar Guðmundsson frá Bæjartúni íbúðafélagi yfir áform um að byggja upp átta íbúða kjarna, ætlaðar fólki yfir fimmtugu við Lækjarveg, þann enda vallarins sem næstur var Dagmálalæk. Ómar er starfsmaður Hrafnhóls, sem byggt hefur upp húsnæði víða á landsbyggðinni síðustu ár, meðal annars á Vopnafirði en Tryggi Harðarson, fyrrum bæjarstjóri á Seyðisfirði, er nýráðinn framkvæmdastjóri Bæjartúns.

Það verkefni hefur átt sér nokkurn aðdraganda en fulltrúar félaganna komu fyrst austur fyrir um þremur árum. Fyrst stóð til að hafa kjarnann á Lónsleiru, síðan við Múlaveg en eftir skriðurnar í fyrra var hann fluttur á vallarsvæðið.

Sú staðsetning er þó ekki fullkomin því djúpt er niður á fast. Því þarf að moka burtu mikilli mold og fylla upp með stöðugra efni. „Það hefur talsvert verið rætt um hvar eigi að finna. Við sáum einnig fram á að þetta yrði dýrt. Þess vegna hefur farið mikill tími og orka í að ná þessu kostnaði niður,“ sagði Ómar.

Húsin rísi í apríl

Hann sagði góða fundi með fulltrúum sveitarfélagsins um miðjan nóvember hafa skilað árangri og nú sé vonast til að hægt sé að byrja á næstu vikum, þótt veturinn sé genginn í garð. Einingar í húsin verða framleiddar í Eistlandi og fluttar hingað með Norrænu. Tími er bókaður í framleiðsluna í mars og er vonast til að einingarnar komi til landsins snemma í apríl.

Tvær vikur tekur síðan að reisa og þrjá mánuði að fullgera þau að innan utan. „Við áætlum að um verslunarmannahelgina á næsta ári getum við klippt á borða og afhent lykla þannig að fólk geti flutt inn.“

Í húsinu verða átta íbúðir, í þremur stærðum frá 50 upp í 90 fermetra. Þeim verður skilað fullbúnum með tækjum og gólfefnum. Í miðju hússins verður salur fyrir samkomur.

Engar fréttir frá Bríeti

Bríeti, leigufélag Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, fékk úthlutað tveimur lóðum við Vallarveg, sem liggur að sjúkrahúsi Seyðisfjarðar. Framkvæmdir eru ekki hafnar þar enn þótt í byrjun árs hafi af ráðherra lýst yfir vonum til að íbúðirnar yrðu tilbúnar fyrir síðasta sumar.

Enginn mætti fyrir hönd Bríetar á fundinn, þótt félaginu hefði verið boðið það. Austurfrétt sendi framkvæmdastjóra fyrirspurn í gær sem ekki hefur enn verið svarað.

Fulltrúar Múlaþings sögðust hafa þær upplýsingar að Bríet hefði samið við verktaka sem væri að teikna eða undirbúa teikningu húsanna. Ekki hefði enn borist umsókn um byggingaleyfi þótt ýtt væri á eftir framgangi verkefnisins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.