Skip to main content

Stærsta loðnuvertíð á Seyðisfirði í 20 ár

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. mar 2022 14:28Uppfært 19. mar 2022 10:00

Leita þarf aftur til ársins 2002 til að sjá viðlíka magni af loðnu landað á vetrarvertíð á Seyðisfirði. Verksmiðjustjóri segir afskaplega vel hafa gengið í bræðslunni sem gengið hefur nánast allan sólarhringinn síðan í byrjun árs.


Búið er að landa 75 þúsund tonnum af loðnu á Seyðisfirði síðan vertíðin hófst. Ellefu þúsund tonn voru komin fyrir áramót en 64 þúsund hafa bæst við síðan byrjað var á ný strax 2. janúar. Þetta gerir Seyðisfjörð að einni af aflahæstu höfnum landsins á vertíðinni.

„Þetta er með hærri tölum sem við höfum séð á vetrarvertíð loðnu. Við þurfum aftur til ársins 2002 til að sjá svipað magn á vetrarvertíð. Þá var tekið á móti 76 þúsund tonnum svo það vantar aðeins herslumuninn til að fara fram úr henni,“ segir Eggert Ólafur Einarsson, verksmiðjustjóri Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði.

Hann segir fiskimjölsverksmiðjuna hafa verið í gangi nær allan sólarhringinn, alla daga vikunnar frá áramótum. Lengsta hléið kom frá síðustu viku þar til í gær þegar vinnsla hófst á nýju úr hráefni sem grænlensku skipin Polar Amaroq og Polar Ammassak lönduðu á þriðjudag. Amaroq var með 945 tonn en Amassak 431 tonn.

Skipin skiptu löndun sinni milli Seyðisfjarðar og Neskaupstaðar. Vegna veðurs hafa loðnuveiðar gegnið treglega síðustu vikur en skipin eltast nú við hrognaloðnu. Var henni landað í Neskaupstað en eldri afla, þar sem skipin höfðu verið á veiðum í nokkurn tíma, á Seyðisfirði.

Það veltur því á veiðum og veðri hvort mikið meira komi til Seyðisfjarðar á þessari vertíð. „Vertíðin hefur gengið afskaplega vel í alla staði. Við höfum verið vel mannaðir, ef allt er talið vinna um 20 manns í verksmiðjunni þegar vertíðin er á fullu. Síðan bætast fleiri við í löndunum,“ segir Eggert.

Grænlensku skipin við bryggju síðasta þriðjudag.