Stækkun Mjóeyrarhafnar langt komin án tilskilinna leyfa

Fyllt var upp í stóran hluta þess svæðis sem ætlað er undir annan áfanga Mjóeyrarhafnar án þess að tilskilin leyfi lægju fyrir. Umhverfismat framkvæmdarinnar stendur nú yfir. Bæjarstjóri segir að fyrir misskilning hafi eldra mat verið talið ná yfir eldra svæði.

Í matsáætlun fyrir annan áfanga Mjóeyrarhafnar, sem verið hefur til umsagnar, segir að ljóst sé af myndum í áætluninni að „að ekki hefur verið staðið að umhverfismati, né leyfisveitingum með fullnægjandi hætti.“

Myndirnar sem vísað er til sýna annars vegar grjótvörn fyrir svæðið upp á rúman hektara, hins vegar landfyllingu upp á 10,6 hektara eða 1,5 milljón rúmmetra efnis. Aðeins á eftir að fylla upp í 1,9 hektara þannig að hún teljist fullkláruð eða um 210 þúsund rúmmetra.

„Þegar ráðist var í fyrsta áfangann, sem er núverandi hafnarsvæði, var unnið umhverfismat. Þegar ráðist var í uppfyllingu fyrir annan hlutann árið 2020 var það talið vera innan sama umhverfismats. Síðan þegar breyta á deiliskipulagi svæðisins verður ljóst að umhverfismatið var ekki til staðar,“ segir Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.

Aflað var tilskilinna leyfa til að dæla upp efni en ekki til að setja það niður. Jón Björn segir ábyrgðina ekki liggja annars staðar en hjá Fjarðabyggð. „Ábyrgðin liggur hjá okkur. Þetta var hins vegar handvömm en ekki ásetningsbrot. Við unnum í þeirri vissu að við værum með umhverfismat,“ segir hann.

Jón Björn segir lærdóm þegar hafa verið dreginn af mistökunum. „Við höfum skýrt verkferla þannig að við undirbúning framkvæmda horfum við lengra inn í framtíðina. Oft eru framkvæmdum áfangaskipt en við vinnum nú undirbúning fyrir þær í heild frekar en ákveðna áfanga.“

Þess vegna er einnig gert umhverfismat nú fyrir þriðja og fjórða áfanga. Nú er beðið eftir áliti Skipulagsstofnunar á matsáætluninni. Næsta skref er síðan að skila umhverfismatsskýrslunni síðar í sumar. Að fengnum athugasemdum við hana ætti álit Skipulagsstofnunar að liggja fyrir í haust.

Ný 550 metra bryggja

Hafist var handa við við gerð Mjóeyrarhafnar árið 2005. Hún er í dag mesta vöruflutningahöfn Austurlands með um 1,5 milljónir tonna á hverju ári. Til stendur að halda áfram inn fjörðinn í öðrum áfanga, lengja Mjóeyrarbryggju um 50 metra og gera nýja bryggju, Framnesbryggju 550 metra langa, í beinu framhaldi þannig að til verði samfelldur stálþilskantur.

Við gerð nýju bryggjunnar er miðað við stærstu gámaskipum sem eru í siglingum við Ísland, en þau eru 180 metra löng, 31 metra breið og með rúmlega 8 metra djúpristu.

Jón Björn segir ekki liggja fyrir endanlega tímaáætlun á framkvæmdunum, aðeins að allt sé klárt ef umsvif aukist á svæðinu, svo sem verði fyrirætlanir að orkugarði að veruleika. Í matsáætluninni segir að gert sé ráð fyrir að ljúka framkvæmdum við annan áfanga á næstu fimm árum.

Af því efni sem enn vantar upp á í landfyllinguna er gert ráð fyrir að fá rúmlega helminginn með uppdælingu frá hafnarframkvæmdum á Eskifirði. „Það stendur til að dæla upp úr höfninni þar og þetta liggur vel saman með samnýtingu efnis.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.