Skip to main content

Slóð fallinna trjáa á Reyðarfirði – Myndband

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. sep 2022 18:48Uppfært 27. sep 2022 18:52

Svo að segja bein lína fallinna trjáa gengur í gegnum miðjan Reyðarfjörð eftir óveðrið sem þar gekk yfir á sunnudag og mánudag.


Segja má að línan byrji við húsið Tungu, hús númer þrjú við Brekkugötu. Þar hafa fleira en eitt tré fallið.

Stóreflistré er fallið í bakgarði Brekkugötu 2, hinu megin götunnar. Það lenti meðal annars á gróðurhúsi. Tré eru einnig fallin við húsvegg Hótel Austur þar við hliðina.

Frá garðinum virðist vindstrengurinn hafa legið yfir leiksvæði og eftir göngustígs milli Eyrarstíg og Brekkugötu. Ein tvö tré liggja í valnum á Brekkugötu 6 og við Eyrarstíg þrjú er myndartré fallið auk annars minna. Þar ruku húsráðendur út og tjóðruðu niður stærðar tré sem hefði valdið miklu tjóni með að falla á húsið. Sé haldið út eftir göngustígnum og yfir Búðarána bætist síðasta tréð við í þessari línu við Mánagötu 5.

Þessi blettur þykir almennt frekar skjólsæll, í vari bakvið melasvæðið. Íbúar lýstu því í dag sem vindurinn hefði á sunnudag „komið úr öllum áttum.“

Víðar á þessu svæði má finna fallin tré, svo sem við Vegagerðina, sem er á ská innan við Brekkugötuna, við Hermes, neðan við leiksvæðið og á mótum Austurvegar og Mánagötu.

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Veðurvaktinni og Bliku, sagðist ekki vera undrandi að heyra af línum sem þessum í bænum þegar Austurfrétt ræddi við hann í dag.