Síldarvinnslan kaupir helmingshlut í Ice Fresh Seafood

Síldarvinnslan hefur gengið frá kaupum á helmingshlut í sölufyrirtækinu Ice Fresh Seafood fyrir um 4,7 milljarða króna. Félagið er með sölunet í um 60 löndum.

„Fjárfesting í Ice Fresh Seafood er gerð í því skyni að styrkja sölu- og markaðsmál félagsins og er rökrétt framhald af þróun sem hefur átt sér stað innan Síldarvinnslunnar hf. á undanförnum árum og birtist meðal annars í kaupum á Vísi hf. í Grindavík á síðasta ári.

Ice Fresh Seafood hefur í mörg ár verið leiðandi í sölu- og markaðssetningu íslenskra sjávarafurða. Með þessum viðskiptum er Síldarvinnslan að komast lengra í virðiskeðju sjávarútvegs og nær neytendum þeirra afurða sem við framleiðum. Í því felast ákveðin sóknartækifæri,“ er haft eftir Gunnþóri Ingvasyni, forstjóra Síldarvinnslunnar, í tilkynningu.

Síldarvinnslan fjárfestir fyrir 4,7 milljarða króna


Upphaflega var tilkynnt um að viðræður stæðu yfir um viðskiptin í lok mars. Verðmæti Ice Fresh Seafood í viðskiptunum er metið 42,9 milljónir evra sem jafngildir 1,76 sinnum bókfært virði eigin fjár þess um síðustu áramót. Það eru um 6,25 milljarðar króna.

Viðskiptin felast annars vegar í kaupum á núverandi hlutum af Samherja hf. fyrir 10,7 milljónir evra, eða 1,56 milljarð króna og hins vegar útgáfu nýs hlutafjár í Ice Fresh Seafood að fjárhæð 21,5 milljónir evra eða 3,1 milljarð króna. Heildarvirði Ice Fresh Seafood verður 64,4 milljónir evra 9,4 milljarðar evra eftir hlutafjáraukninguna og fjárfesting Síldarvinnslunnar nemur 32,2 milljónum evra eða 4,7 milljörðum króna.

Samhliða þessum viðskiptum mun Ice Fresh Seafood ganga frá kaupum á eignarhlutum í erlendum sölufélögum sem fyrirtækið hefur átt í farsælu viðskiptasambandi við undanfarin ár. Um er að ræða helmingshlut í Seagold Ltd. í Bretlandi, 100% eignarhlut í Ice Fresh Seafood SAS í Frakklandi, 67% hlutafjár í Ice Fresh Seafood Spain S.L. og helmingshlut í Aquanor Marketing Inc. í Bandaríkjunum fyrir samtals 13,9 milljónir evra eða rúma tvo milljarða króna. Félögin voru áður hluti af samstæðu Samherja Holding ehf. og unnið hefur verið að viðskiptunum frá því í lok árs 2022. Þá mun Ice Fresh Seafood ganga frá kaupum á helmingshlut í sölufélaginu Cabo Norte S.A. á Spáni af Síldarvinnslunni fyrir 4,9 milljónir evra eða 714 milljónir króna.

Velta Ice Fresh Seafood var 337 milljónir evra eða rúmir 49 milljarðar króna árið 2022 og velta erlendu sölufélaganna var 194 milljónir evra eða tæpir 28,3 milljarðar króna. Samanlögð velta að teknu tilliti til sölu milli félaga var 485 milljónir evra eða 70,7 milljarðar. Samanlögð EBITDA félaganna var 6,7 milljónir evra eða 976 milljónir króna leiðrétt fyrir einskiptis kostnaði hjá Ice Fresh Seafood vegna stríðsins í Úkraínu.

Margra ára þekking í sölu sjávarafurða


Í tilkynningu segir að fjárfestingin í Ice Fresh Seafood sé í samræmi við þá stefnu Síldarvinnslunnar að grípa þau vaxtartækifæri sem bjóðast og stuðla að aukinni áhættudreifingu og arðsemi í rekstri. Ice Fresh Seafood sésölufyrirtæki sem býr yfir margra ára reynslu og sérþekkingu við sölu- og markaðssetningu sjávarafurða.

Gústaf Baldvinsson er framkvæmdastjóri Ice Fresh Seafood og hefur gegnt því starfi frá stofnun fyrirtækisins í janúar 2007. Sölunet fyrirtækisins nær til yfir 60 landa og á bak við það er áratuga þekking og viðskiptasambönd á helstu mörkuðum fyrir íslenskt sjávarfang.

Ice Fresh Seafood var áður að fullu í eigu Samherja sem aftur á 30,06% hlut í Síldarvinnslunni. Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Síldarvinnslunnar hf., er jafnframt forstjóri Samherja hf. Með vísan til ákvæða laga og starfsreglna stjórnar þá vék Þorsteinn Már sæti innan stjórnar Síldarvinnslunnar hf. við meðferð málsins og kom ekki að ákvörðunartöku vegna þess. Viðskiptin eru gerð með hefðbundnum fyrirvörum um niðurstöður áreiðanleikakannanna og samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Unnið lengi með Vísi


„Síldarvinnslan hefur verið leiðandi framleiðandi uppsjávarafurða á Íslandi í áratugi. Við hjá Ice Fresh Seafood höfum byggt upp sterk tengsl við fyrirtækið á undanförnum árum með sölu á hluta afurða þess.

Með kaupum Síldarvinnslunnar á Vísi hf. í Grindavík varð Síldarvinnslan jafnframt stór framleiðandi bolfiskafurða. Samband okkar við Vísi hf. nær enn lengra aftur enda höfum við séð um sölu á hluta afurða fyrirtækisins í mörg ár.

Við þessi viðskipti öðlast Ice Fresh Seafood ákveðna sérstöðu með aukinni aðkomu að sölu bæði íslenskra bolfisk- og uppsjávarafurða. Það skapar spennandi áskoranir sem við hlökkum til að takast á við,“ segir Gústaf Baldvinsson, framkvæmdastjóri Ice Fresh Seafood.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.