Skip to main content

Samið um lengingu löndunarbryggju á Vopnafirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 01. apr 2025 13:35Uppfært 01. apr 2025 14:02

Samningar hafa náðst við Hagtak úr Hafnarfirði um framkvæmdir við stækkun löndunarbryggju á Vopnafirði. Loðnubrestur í fyrra seinkaði verkinu en áfram var leitað leiða til að koma framkvæmdinni á koppinn. Það hefur verið leyst með lengri framkvæmdatíma.


Verkefnið er unnið í samvinnu Vopnafjarðarhrepps og Vegagerðarinnar, en ríkið borgar 60% af verkinu á móti 40% hreppsins. Verkið var boðið út í febrúar í fyrra og bárust tvö tilboð, bæði um 20% yfir kostnaðaráætlun.

Hún hljóðaði upp á 535 milljónir en Hagtak í Hafnarfirði átti lægra boðið, 650 milljónir. Þá var gert ráð fyrir að verkið færi strax af stað og yrði lokið 1. september 2025. Loðnubrestur setti hins vegar strik í reikninginn við að ljúka samningum yfir kostnaðaráætlun.

Lengri framkvæmdatími skapar samlegðaráhrif


Valdimar O. Hermannsson, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps, segir að Hagtak hafi verið viljugt til viðræðna um breytta útfærslu og niðurstaðan hafi orðið sú í fyrra að fresta framkvæmdum um ár. Samkvæmt því hefðu þær átt að hefjast núna 1. apríl. Sest var aftur yfir útfærsluna í haust þegar Hafrannsóknastofnun taldi sýnt að ekki yrði hægt að gefa út loðnukvóta.

Niðurstaðan var að fresta ekki með formlegum hætti upphafi framkvæmda, heldur seinka verklokum um ár, eða til 2027. Það gefur Hagtaki meira svigrúm til að byrja þegar því hentar og skapa samlegðaráhrif með öðrum verkefnum sem fyrirtækið hefur samið um á Norður- og Austurlandi. Fyrir sveitarfélagið þýðir þetta að fjármögnunarkostnaður dreifist á 3-4 ár í stað tveggja.

Þótt ljóst væri í fyrra að verkið færi ekki af stað var gengið í að panta stálþilið í bryggjuna og er það komið á Vopnafjörð. Valdimar segir að drifið hafi verið í því í ljósi hækkandi heimsmarkaðsverðs á stáli.

Bryggjan nær út að Ásgarði


Samkvæmt útboðslýsingunni felur verkið í sér dýpkun á klapparbotni, upp á rúma 11 þúsund rúmmetra, síðan jarðvinnu og undirlag áður en steyptur verður nýr 137 metra langur hafnarkantur. Þekja verður steypt á hann árið 2028.

Með öðrum orðum verður löndunarbryggjan lengd alla leið út að Ásgarði, varnargarði sem gengur út í fjörðinn. Með því skapast viðlegupláss fyrir skip Brims sem í byrjun árs hóf að geyma skip sín á Vopnafirði í auknu mæli á milli veiða. Í dag er aðeins pláss þar fyrir tvö af þremur uppsjávarveiðiskipum.

Nýr löndunarkrani Vopnfirðinga verður fluttur út á Ásgarð sem á að gera afgreiðslu skipa við höfnina liprari. Áætlað er að verkið í heild sinni kosti um einn milljarð króna, sem skiptist eins og fyrr segir milli ríkis og sveitarfélagsins.

Mikilvægt að nýta ríkisstyrkinn


Fleira hefur breyst á þeim tíma sem stækkunin hefur verið undirbúin. Hún komst á skrið fyrir um fjórum árum þegar Brim lýsti yfir vilja til að stækka athafnasvæði sitt. Loðnubrestur í fyrra varð til þess að fyrirtækið hefur í það minnsta seinkað þeim áformum, þótt það keypti Sláturhúsið sem gefur því stækkunarmöguleika í fleiri áttir.

Valdimar segir framkvæmdina ekki háða hvenær Brim ákveði ráðist í framkvæmdir á sínu athafnasvæði. Um sé að ræða fjárfestingu í innviðum sem gagnist Vopnafirði til lengri tíma litið og séu fjármagnaðir að hluta af ríkinu. Ekki verði alltaf hægt að ganga að þeirri fjármögnun vísri.

Loðnubrestur óheppilegur en Vopnafjarðarhreppur stendur vel


Loðnubrestur í byrjun þessa árs hefur komið við Vopnafjarðarhrepp, einkum hafnarsjóð, eins og mörg önnur sjávarútvegssamfélög.

„Áætlað tekjutap okkar vegna loðnubrests í fyrra voru 100 milljónir eða 70 milljónir hjá hafnarsjóði og 30 milljónir í útsvar. Á þessu ári áætluðum við 100 milljónir í hafnarframkvæmdir. Miðað við seinkunn framkvæmda er útlit fyrir að það fé verði ekki nýtt nema að hluta. Við erum að endurskoða fjárhagsáætlun ársins 2025 en sveitarfélagið stendur engu að síður vel fjárhagslega.“

Núverandi löndunarbryggja verður lengd um 130 metra til austurs að Ásgarði. Sjá má núverandi bryggju til vinstri í myndinni en garðurinn gengur þvert út í sjó fyrir henni miðri. Fjær er smábátahöfnin. Mynd: GG