Skip to main content

Samgönguáætlun og tillaga um jöfnun dreifikostnaðar raforku í nóvember

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. sep 2025 13:45Uppfært 10. sep 2025 13:45

Umhverfis- orku – og loftslagsráðherra boðar lög um jöfnun dreifikostnaðar raforku í landinu á Alþingi í vetur. Austfirðingar bíða margir eftir samgönguáætlun sem innviðaráðherra ætlar að leggja fram í nóvember. Hann boðar einnig stofnun sérstaks innviðafélags.


Þetta er meðal þess sem lesa má út úr þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar sem lögð var fram í gær. Þar eru listuð upp þau mál sem ráðherrar hyggjast leggja fram á Alþingi í vetur. Sum málanna varða íbúa Austurlands umfram önnur.

Austurfrétt greindi frá því að í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar væri búið að reikna með jöfnun dreifikostnaðar raforku. Frumvarp um slíkt er á lista Jóhanns Páls Jóhannssonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Nánar segir um það að hækka eigi jöfnunargjald og leggja að hluta til á stórnotendur raforku. Markmiðið er að jafna dreifikostnað um allt land og draga úr kostnaði ríkisins vegna jöfnunar. Frumvarpið á að koma fram í nóvember. Jóhann Páll ætlar einnig að leggja fram í mars langtímaáætlun um uppbyggingu flutningskerfis raforku, en hún er endurnýjuð á fjögurra ára fresti.

Úr hans ráðuneyti er einnig að koma frumvarp um breytingu á vörnum gegn ofanflóðum, sem á að styrkja umgjörð ofanflóðavarna og sporna gegn dvöl utan leyfilegs nýtingartíma í byggingum á hættusvæðum. Von er á því í mars.

Innviðafélag um jarðgöng


Eyjólfur Ármannsson boðaði á fundi á Egilsstöðum í lok ágúst nýja forgangsröðun jarðganga og annarra samgöngubóta í nýrri samgöngu- og jarðgangaáætlun. Þær koma fram í nóvember. Í febrúar ætlar Eyjólfur sér að leggja fram tillögu um að stofnað verði sérstakt innviðafélag sem sjái um fjármögnun stærri samgönguframkvæmda, svo sem jarðganga.

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, endurflytur á næstu dögum frumvarp um kílómetragjald á ökutæki og aðrar breytingar sem tengjast því, meðal annars um niðurfellingu olíugjalds.

Breytingar á fjarlægð sjókvía frá sæstrengjum og leiðarmerkjum


Í október er von á tillögum frá innviðaráðherra um breytingar á leyfilegri nálægð sjóeldiskvía og slíkra mannvirkja við bæði önnur mannvirki og siglingaleiðir. Annars vegar verður skerpt á helgunarsvæði sæstrengja með breytingu á fjarskiptalögum, hins vegar gagnvart siglingaleiðum og leiðarmerkjum í lögum um öryggi siglinga. Um hvort tveggja hefur verið deilt vegna mögulegs fiskeldis í Seyðisfirði.

Að lokum boðar innviðaráðherra ný sveitarstjórnarlög í október og endurskoðun á byggðakvóta og strandveiðum í febrúar.

Aðgangsgjald fyrir ferðamannastaði ríkisins


Önnur málefni sem varða sjávarútveg eru í atvinnuvegaráðuneytinu. Hanna Katrín Friðriksson boðar ný heildarlög um lagareldi í febrúar og um leið breytingu á lögum um lax- og silungsveiði og fiskirækt sem eiga að styrkja lög um veiðina og ræktina.

Breytingar á búvörulögum, sem sagðar eiga að styrkja stöðu frumframleiðenda, eiga að koma í febrúar og nú í september verður endurflutt frumvarp um breytingar sem þarf að gera til að ná markmiðinu um að útrýma riðuveiki.

Boðað hefur verið náttúru- og innviðagjald á ferðamannastaði í eigu íslenska ríkisins. Það á að koma fram í nóvember. Nú í september verður endurflutt frumvarp um heimagistingu, þar sem sá fjöldi eigna sem leigðar eru út er meðal annars takmarkaður.

Verður þingmönnum í Norðausturkjördæmi fækkað?


Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra, ætlar nú í byrjun þings að endurflytja frumvarp um sameiningu allra sýslumannsembættanna í eitt. Í febrúar er von á tillögum um breytingar á kosningalögum sem eiga að jafna atkvæðavægi og dreifingu þingsæta.

Frá ráðuneytinu koma einnig ný heildarlög um almannavarnir. Markmið þess er meðal annars að skýra skyldur og ábyrgð þeirra sem vinna að almannavörnum, meðal annars sveitarfélaga. Endurreisn eftir hamfarir fær aukið vægi. Það frumvarp á að koma í október.

Formenn ríkisstjórnarflokkanna kynntu þingmálaskrána í gær. Mynd: Stjórnarráðið