Roy Tore Rikardsen nýr framkvæmdastjóri Fiskeldis Austfjarða
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 19. feb 2024 09:27 • Uppfært 19. feb 2024 09:32
Norðmaðurinn Roy Tore Rikhardsen hefur verið ráðinn nýr framkvæmdastjóri Fiskeldis Austfjarða, sem starfrækir fiskeldi í Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði og Berufirði. Hann kemur til með að starfa á Austfjörðum.
Í tilkynningu fyrirtækisins segir að Roy Tore hafi yfir 20 ára starfsreynslu í fiskeldi, þar með talið að vinna í köldum sjó við norður Noreg og Kanada. Hann hefur frá árinu 2022 verið framkvæmdastjóri laxasláturhússins Salten N950 en hafði áður verið rekstrarstjóri fiskeldisfyrirtækisins Grieg í Kanada og þar áður svæðisstjóri þess í Finnmörk.
„Við ætlum okkur að efla fyrirtækið og fiskeldi á Íslandi með Roy Tore í okkar liði. Íslenskt fiskeldi er enn á frumkvöðlastigi og lykillinn að velgengi okkar þar er góður rekstur sem byggir á dýravelferð, virðingu fyrir umhverfinu og einbeittu starfsfólki.
Roy Tore hefur mikla reynslu alls staðar úr virðiskeðjunni og mun leggja sitt af mörkum til að efla rekstrarlið okkar. Hann verður með starfsstöð á Austfjörðum,“ segir Asle Rønning, stjórnarformaður.
„Fiskeldi Austfjarða er hluti af sjálfbærum iðnaði sem framleiðir hollan mat fyrir vaxandi fólksfjölda. Ég hlakka til að verða hluti af starfsmannahóp Fiskeldis Austfjarða. Saman munum við þróa fyrirtækið og leggja okkar af mörkum til að skapa ný störf á Íslandi og efla þau samfélög sem við erum með starfsemi,“ er haft eftir Roy Tore í tilkynningu.
Guðmundur Gíslason hefur verið framkvæmdastjóri félagsins frá upphafi en hann tilkynnti í september að hann hygðist láta af störfum. Hann mun gera það þegar hann hefur komið Roy Tore inn í starfið.
Mynd: Salten Aqua