Ríkið telur sig búið með öll mál sem snúa að Finnafirði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 11. júl 2023 16:47 • Uppfært 11. júl 2023 16:48
Íslenska ríkið telur sig hafa staðið við sinn hluta viljayfirlýsingar sem gerð var um þróun stórskipahafnar í Finnafirði. Framhald málsins sé nú í höndum Bremenports og sveitarfélaganna á svæðinu.
Þetta kemur fram í svari innviðaráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar við fyrirspurn Andrés Inga Jónssonar, þingmanns Pírata um hver sé aðkoma ráðuneytisins að mögulegri hafnaruppbyggingu.
Þar segir að ríkið hafi komið að málinu á grundvelli viljayfirlýsingar frá árinu 2016 en að henni áttu einnig aðild Langanesbyggð, Vopnafjarðarhreppur, Bremenports og verkfræðistofan Efla.
Ríkið hafi síðan lokið öllum þeim verkefnum sem snéru að því samkvæmt yfirlýsingunni og ekki hafi verið ákveðið að framlengja samstarfið.
Aðkoma ríkisins að verkefninu sé því engin eins og sakir standi og málið því á höndum sveitarfélaganna og samstarfsaðila þeirra.
Í mars sagði stjórnandi hjá Bremenpports í viðtali við Austurgluggann að hafnarsamlagið hefði undanfarin misseri gert ítrekaðar tilraunir til að ná í íslensk stjórnvöld um hvort þau hefðu hug á að halda samstarfinu áfram. Við því hefðu engin svör fengist.
Árið 2019 var stofnað þróunarfélag um höfnina með aðkomu Bremenports og sveitarfélaganna. Covid-faraldurinn tafði síðan alla vinnu þar en síðasta sumar fór rannsóknavinna og annar undirbúningur aftur á skrið.