Skip to main content

Regnbogafánar rifnir niður á Egilsstöðum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 14. ágú 2023 14:48Uppfært 14. ágú 2023 14:49

Regnbogafánar, sem héngu upp til stuðnings samfélagi hinsegin fólks, voru rifnir niður á Egilsstöðum aðfaranótt laugardags.


Fánarnir héngu uppi sitt hvoru megin við götuna Skógarlönd, annars vegar við Vilhjálmsvöll, hins vegar hjá Safnahúsinu.

Við völlinn voru fánarnir bara teknir niður þannig þeir lágu á jörðinni og því lítið mál að toga þá upp aftur.

Fáninn við safnahúsið skemmdist. „Hann hefur sennilega rifnað við að vera tekinn niður,“ segir Stefán Bogi Sveinsson, héraðsskjalavörður. Safnahúsið átti eldri fána sem fór upp í staðinn.

Stefán Bogi segir að atvikið og skemmdirnar verði tilkynntar lögreglu. Enginn vafi er í hans huga að gjörningnum er beint gegn samfélagi hinsegin fólks.

„Ásetningurinn gæti ekki verið skýrari. Það er verið draga niður regnbogafána og þeir einstaklingar sem standa í því eru nógu áfjáðir til að eyðileggja okkar.“

Gleðigangan Hýr halarófa var gengin á Seyðisfirði á laugardag. Áætlað er að 100-150 manns hafi tekið þátt í henni og sýnt þannig stuðning við réttindabaráttu hinsegin fólks.

Regnbogafáni við hún við Safnahúsið. Mynd: Stefán Bogi Sveinsson