Skip to main content

Rafmagnslaust á stórum hluta landsins

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. sep 2022 12:59Uppfært 25. sep 2022 13:07

Rafmagn fór af svæðinu frá Blöndu að Hornafirði skömmu um kortér fyrir eitt í dag, samkvæmt upplýsingum frá aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi.


Starfsfólk Landsnets er komið af stað til viðgerða en ekki er ljóst hvers eðlis bilunin er eða hve langan tíma tekur að koma rafmagni á aftur.

Rauð veðurviðvörun tók gildi á hádegi á Austurlandi þar sem vindstyrkur er ætlaður allt að 60 m á sek í hviðum og gert ráð fyrir jöfnum vindi í um 30 m/s. Þjóðveginum frá Fáskrúðsfirði að Kirkjubæjarklaustri hefur af þessum sökum verið lokað. Þá er Öxi lokuð, verið að loka Fagradal og Breiðdalsheiði, Fjarðarheiði Vatnskarði og Möðrudalsöræfum.

Vindstyrkur verður mestur í dag og fram á kvöld. Aðeins dregur þá úr en afleitt veður áfram á Austfjörðum til fyrramáls og fram undir hádegi gangi spár eftir. Því er hvatt til að ferðalögum verði slegið á frest fram til hádegis á morgun.

Áhlaðandi er á austanverðu norðurlandi, frá Vopnafirði að Borgarfirði eystra. Háflóð verður í kvöld milli ellefu og tólf. Eigendur báta í höfnum eru hvattir til að huga að þeim.

Heldur hefur bætt í vind nú um hádegsbil og útköllum til björgunarsveita fjölgað talsvert. Þau tengjast enn sem komið er fyrst og fremst þakplötum sem eru að losna og því um líkt. Lítið sem ekkert er um að lausamunir séu á ferðinni. Þá er umferð á vegum í algjör lágmarki.

Aðgerðastjórn þakkar þau góðu viðbrögð sem hún hefur fengið við tilmælum um að tryggja lausamuni og vera ekki á ferðinni meðan veðrið gengur yfir.