Orkumálinn 2024

Ráðherra mátti ekki skerða greiðslur til sveitarfélaga með reglugerð

Fljótsdalshreppur er eitt fimm sveitarfélaga sem undirbúa bótakröfu á hendur íslenska ríkinu eftir að Hæstiréttur dæmdi í morgun að skerðing framlaga til þeirra úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga væri ólögleg. Líklegt er að bæturnar nemi vel yfir einum milljarði króna.

„Sveitarfélögin eru ánægð. Þau hafa fylgt málstað sínum eftir því þau gerðu athugasemdir strax,“ segir Óskar Sigurðsson, lögmaður sem rak málið fyrir hönd sveitarfélaganna.

Það var árið 2012 sem þáverandi ráðherra sveitarstjórnamála, Ögmundur Jónasson, setti inn ákvæði í reglugerð um Jöfnunarsjóð um að sveitarfélög með heildarskatttekjur frá útsvari og fasteignaskatti sem væru 50% fram yfir landsmeðaltal skyldu ekki njóta framlaga úr Jöfnunarsjóði. Skerðingin tók gildi strax árið 2013.

Reglugerðin byggði á tillögum starfshóps sem skipaður var í byrjun árs 2009 af fyrri ráðherra, Kristjáni Möller og lögum frá Alþingi þar sem ráðherra var heimilað að setja skerða framlög með reglugerð, á þann hátt sem síðar var. Í lögunum var ekki kveðið á um hversu langt umfram landsmeðaltal tekjurnar þyrfti að vera þannig til skerðingar kæmi.

Samkvæmt 78. grein íslensku stjórnarskrárinnar skulu tekjustofnar sveitarfélaga ákveðnir með lögum. Fjórir af þeim fimm dómurum Hæstaréttar, sem dæmdu í málinu, töldu að ekki væri hægt að breyta greiðslum til sveitarfélaga nema með lögum. Alþingi hefði því ekki verið heimilt að framselja valdi sitt á jafn víðtækan hátta og gert var, né ráðherra heimilt að setja reglugerðina.

Þar með snéri Hæstiréttur við dómum bæði héraðsdóms og Landsréttar. Einn dómari skilaði sératkvæði og komst að andstæðri niðurstöðu.

Bótakrafa Fljótsdals minnst 40 milljónir

Að málarekstrinum stóðu auk Fljótsdals, Ásahreppur, Hvalfjarðarsveit, Skorradalshreppur og Grímsness- og Grafningshreppur. Mál þess síðastaldna var rekið sem prófmál. Hæstiréttur gerði ríkinu að greiða hreppnum 234 milljóna króna höfuðstól fyrir árin 2013-2016, auk vaxta og dráttarvaxta. Sambærileg bótakrafa er yfirvofandi fyrir árin 2017-2019 og þar til reglugerðin hefur verið numin úr gildi. Í samtali við Austurfrétt sagðist Óskar telja að endurskoða þyrfti fyrirkomulag Jöfnunarsjóðs.

Aðspurður svaraði hann að næstu skref málsins yrðu að reikna kröfur sveitarfélaganna og krefja ríkið um greiðslur. Fyrir árin 2013-2016 er höfuðstóll krafna sveitarfélaganna 650 milljónir. Því er ljóst að heildarkröfur sveitarfélaganna fara vel yfir einn milljarð króna. Í tilfelli Fljótsdalshrepps er höfuðstóllinn fyrir árin 2013-16 um 40 milljónir króna.

Í málarekstri sínum héldu sveitarfélögin því fram að ríkið hefði með ákvörðun sinni brotið gegn samkomulagi frá 1996 um greiðslur úr Jöfnunarsjóði sem fylgdu með flutningi grunnskóla frá ríki til sveitarfélaga. Í því samkomulagi var sveitarfélögum bæði fært hærra útsvarshlutfall og greiðslur úr Jöfnunarsjóði. Hæstiréttur taldi ríkið ekki hafa brotið gegn því samkomulagi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.