Skip to main content

Pósthúsinu á Vopnafirði lokað um næstu mánaðamót

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. apr 2025 14:45Uppfært 07. apr 2025 14:45

Íslandspóstur hefur ákveðið að loka pósthúsinu sínu á Vopnafirði þann 1. maí næstkomandi. Póstboxi og póstbíl er ætlað að taka við af þjónustunni. Forstöðumaður hjá Póstinum segir að eftirspurn eftir þjónustu pósthúsa hafi minnkað.


„Það hefur dregið verulega úr eftirspurn eftir afgreiðsluþjónustu pósthúsa um leið og annars konar þjónusta hefur aukist til muna. Innlendar bréfasendingar hafa til dæmis dregist mikið saman á síðastliðnum árum en pakkasendingum fjölgað gríðarmikið.

Samhliða þessu hafa þarfir og kröfur viðskiptavina breyst mikið. Okkar markmið er ávallt að bæta þjónustuna en okkur ber einnig skylda til að leita hagkvæmra leiða í rekstrinum og því eru breytingar sem þessar óhjákvæmilegar,“ segir Kjartan Flosason, forstöðumaður pósthúsa hjá Póstinum.

Íslandspóstur hefur undanfarin ár rekið pósthús í samstarfi við útibú Landsbankans á Vopnafirði. Eftir lokunina verða í boði heimsendingar með póstbíl alla virka daga frá 10:30-12:00. Bréf verða borin út tvisvar í viku. Frímerki og umbúðir verða seld í Kauptúni. Póstkassi verður þar einnig. Einn starfsmaður hefur þjónustað Póstinn í verktöku.

Þjónusta til sveita verður óbreytt, bréfum og bögglum er dreift tvisvar í viku eða á þriðjudögum og fimmtudögum.

Pósturinn leggur líka mikla áherslu á póstbox, sem nýtast bæði til að senda og sækja pakka. Á Vopnafirði er póstbox við Torgið. Kjartan segir að ánægðustu viðskiptavinir fyrirtækisins séu þeir sem noti póstboxin. „Við erum þó ekkert að fara af svæðinu, heldur breytist þjónustan í takt við breytt rekstrarumhverfi og breyttar þarfir neytenda og við teljum hana síður en svo verða til hins verra."

Þjónustupósthús Vopnfirðinga er á Húsavík. Næsta póstafgreiðsla verður eftir breytingarnar á Þórshöfn í 70 km fjarlægð.

Á Austurlandi eru þá eftir tvö eiginleg pósthús, á Egilsstöðum og Reyðarfirði og tvær minni afgreiðslur á Seyðisfirði og Djúpavogi. Í júní í fyrra var fjórum pósthúsum í Fjarðabyggð lokað. Utan Austurlands er framundan lokun pósthúss í Hafnarfirði þann 1. júní.

Mynd: Jón Sigurðarson