Öflugasta býli sem rannsakað hefur verið hérlendis

Fornleifarannsóknin á landnámsskálanum að Stöð í Stöðvarfirði hefur leitt í ljós að það hafi verið gríðarlega öflugt býli. Fornleifafræðingur segir að svo virðist sem þar hafi búið höfðingi sem síðar hafi horfið úr sögunni.

„Ef við horfum á þá kvaða sem notaðir eru til að mæla auð, völd og stöðu þá er þetta orðið öflugasta býli sem rannsakað hefur verið á Íslandi. Það er samt alls ekki það sama og að um sé að ræða öflugasta býli landsins.

Það er sama á hvaða gripaflokk litið er. Við erum alls staðar með fleiri en fundist hafa í fyrri rannsóknum hérlendis. Þetta er líka stærsti landnámsskáli sem rannsakaður hefur verið. Stærðin er yfirleitt ein öruggasta vísbendingin um velsæld. Þarna virðist hafa búið höfðingi sem síðan hefur horfið úr sögunni.“

Þetta segir Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur sem stýrt hefur uppgreftrinum að Stöð frá því hann hófst formlega sumarið 2016 en í byrjun árs kom út skýrsla um afrakstur rannsókna síðasta sumars.

Yngri skálinn fullmældur

Ljóst er að á Stöð hafa verið tvær miklar byggingar. Annars vegar landnámsskáli, eða yngri skáli, sem talinn er byggður eftir 870. Stefnt var að því að ljúka við að grafa hann upp síðasta sumar, en það tókst ekki. Hins vegar náðist að staðfesta að hann hefur verið 31,4 metrar á lengd og 8,5 metrar á breidd.

Undir honum er eldri skáli, trúlega byggður upp úr aldamótunum 800. Hann er talinn hafa verið útstöð, það er fólk hafi búið þar hluta úr árinu og unnið eða aflað ákveðinna hráefna en ekki stundað hefðbundinn landbúnað. Ljúka þarf við að grafa yngri skálann í burtu áður en hægt verður að hefja rannsóknir á fullu í þeim yngri.

Tóvinnan staðfestir heilsárbúsetu

Á Stöðvarfirði hafa fundist minjar um nýtingu sjávarafurða. Meðal merkustu gripa sumarsins voru tveir skutlar til að skutla seli og smáhvali. Annar þeirra var með svokallaðan agnúa, lykkju til að vefja bandi í þannig að draga mátti skutulinn til baka ef skotmarkið var ekki hæft. Þá telja fornleifafræðingarnir á Stöð sig eining hafa fundið öngla.

Í sumar fannst einnig mikið af áhöldum til tóvinnu, svo sem kljásteinar og snældusnúðar. „Tóvinnan er meðal þess sem einna helst staðfestir að þarna hafi verið heilsárbúseta. Þarna hefur verið vefstaður og kindur til að framleiða ullina. Að finna einn og einn snældusnúð á útstöð er ekki furðulegt en að þeir séu orðnir 15 sannfærir mig um að þetta sé landnámsskálinn.“

Fleira mun finnast í gólfinu

Hvergi í íslenskum landnámsuppgreftri hafa fundist fleiri perlur en á Stöð. Þær eru orðnar 92 eftir að 49 fundust í sumar og Bjarni er viss um að þeim muni fjölga enn frekar. „Við erum bara rétt búin að krukka í gólfið. Þar finnast þær yfirleitt.“

Perlurnar, auk magn silfurs, gulls, blýs og brýna úr flögubergi undirstrika ríkidæmi Stöðvar. Fjöldi brota úr jaspis, glerhöllum og tinnu hafa einnig vakið athygli þar sem þessar steindir voru nýttar í skurðaráhöld. „Þetta er stórmerkilegt og hefur alþjóðlega skírskotun. Við þurfum ekki að velkjast í vafa um að fólkið á Stöð sló þessa steina.

Ásláttur á hörðum steinum var talinn aflagður í yngri járnöld, einkum meðal norrænna bænda. Stöð sýnir að svo var ekki heldur kunnu járnaldarbændur að slá steina. Kunnáttan kann að hafa verið í afmörkuðum þjóðfélagshópum.“

Verður að rannsaka til fulls

Í skýrslunni segir að áberandi margar steinskífur hafi fundist í sumar sem taldar eru hafa verið nýttar til að loka fyrir poka sem til dæmis inniheldu lýsi eða mjólk. Bjarni segir að almennt hafi ekki fundist mikið af skífum í fyrri uppgröftum, hvorki hér í nágrannalöndunum. Á því séu tvær skýringar, annars vegar að fornleifafræðingum hafi einfaldlega yfirsést þær, hins vegar að í bæði Svíþjóð og Danmörku hafi verið hefð fyrir ílátum úr leir.

Skífurnar, líkt og flest hinna áhaldanna hafa fundist í austurhluta skálans. „Það bendir til þess að hann hafi gegnt öðru hlutverki en aðrir hluta skálans. Þess hluti virðist hafa gegnt því hlutverki sem skemmur og búr gerðu síðar,“ segir Bjarni.

Hann segir brýnt að haldið verði áfram að rannsaka stöð. „Það á mikið eftir að koma í ljós. Þetta er staður sem verður að grafa til fulls því hann hefur mikið að segja okkur. Það væri óverjandi að rannsaka hann ekki frekar. Ég get vel séð fram á að það taki 15 ár í viðbót.“

Yfirlitsmynd af hinu rannsakaða svæði á Stöð. Mest áberandi er yngri skálinn. Norður vísar niður. Mynd: Bjarni F. Einarsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.