Nýsköpun á ekki að vera einkamál höfuðborgarsvæðisins

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra heitir því að gerði verið úttekt á dreifingu styrkja ríkisins til nýsköpunar- og rannsóknastarfs á landsvísu. Sláandi sé að heyra hve skarðan hlut Austurland beri þar frá borði.

Þetta kom fram í mái Katrínar á opnum fundi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs á Egilsstöðum í gær. Fyrir fundinn hafði Katrín og tveir þingmenn flokksins heimsótt valda staði á Austurlandi.

Katrín sagðist hafa orðið þess áskynja í samtölum við fólk að því þætti Austurland bera skarðan hlut frá borði í úthlutunum styrkja til nýsköpunar. Katrín bætti því við að henni þætti tölurnar sláandi og sagði að skoða yrði málið.

Hún hefði því ákveðið að vísinda- og tækniráð, sem hún veitir formennsku, myndi vinna úttekt á hvernig styrkir til nýsköpunar og rannsókna dreifast um landið. „Ég heyri að það er vandamál sem þarf að skoða betur. Við þurfum að taka þetta til greina við gerð nýsköpunarstefnu. Nýsköpun á ekki að vera einkamál höfuðborgarsvæðisins,“ sagði Katrín.

Ekki nógu góðar umsóknir eða kerfislægir fordómar?

Fyrirheit forsætisráðherra koma í kjölfar orða Albertínu Friðbjargar Elíasdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi af þingi í síðustu viku þar sem hún benti á að yfirgnæfandi hluti úthlutunar Tækniþróunarsjóðs og listamannalauna hefði runnið inn á höfuðborgarsvæðisins.

„Hver sem ástæðan er, hvort umsóknir sem berast utan höfuðborgarsvæðisins eru almennt ekki nógu góðar, hvort ekki berast umsóknir þaðan eða hvort það séu hreinlega kerfislægir fordómar gegn umsóknum utan höfuðborgarsvæðisins, þá er ljóst að við verðum að gera eitthvað til að breyta þessu,“ sagði Albertína.

Ómenning í sumum stofnunum

Katrín kom aftur inn á stuðning við nýsköpun á landsbyggðinni eftir spurningar um störf án staðsetningar. Hún sagði að svo virtist sem það ylti á menningu innan viðkomandi stofnunar hvar störf væru staðsett þótt svo ætti ekki að vera.

„Að hingað mæti ekki fólk frá Tækniþróunarsjóði, að ekki sé starfsmaður frá Nýsköpunarmiðstöð – það er ekki í lagi.“ Katrín hélt áfram með að mögulega þyrfti að fastsetja ríkisstofnunum viðmið um dreifingu starfa en ekki láta það í sjálfsvald hverrar stofnunar.

Undir þessi orð tók Steingrímur J. Sigfússon, oddviti Vinstrihreyfingarinnar. „Sumar stofnanir eru vanar þessu fyrirkomulagi en hjá öðrum fer varla nokkur maður út fyrir Reykjavík nema í dagsferð með flugi. Þetta er ómenning sem byggst hefur upp í sumum stofnunum.“

Gengur ekki að ríkisfyrirtæki valdi usla á vinnumarkaði

En það var víðar sem forsætisráðherra taldi ástæðu til að fastsetja viðmið frekar en beina almennum tilmælum til ríkisfyrirtækja og stofnana. Hún sagði að slíkt þyrfti einnig að skoða í tilfellum bankaráða í samhengi við launahækkun bankastjóra Landsbankans.

Katrín sagði núverandi ríkisstjórn hafa tekið upp samtal við aðila vinnumarkaðarins í tengslum við kjarasamninga. Margt jákvætt hefði komið upp úr því og til dæmis hefði verið ákveðið að leggja niður Kjararáð. Markmiðið með því hefði verið að koma í veg fyrir að æðstu embættismenn fengju í einu stökki miklar launahækkanir heldur væri það í lögum að kjör þeirra fylgdi annarri launaþróun.

„Þetta var risastór ákvörðun því ráðið hefur verið upppretta deilna. Við eigum ekki að vera leiðandi í launaþróun , ekki vera að fá tugprósenta hækkanir sem valda óróa. Ég veit ekki hvers vegna þetta var ekki gert fyrr.

Við sitjum hins vegar uppi með aðila sem ekki lúta þessum lögum. Það gengur ekki að ríkisstofnanir eða fyrirtæki skapi ójöfnuð eða valdi usla á vinnumarkaði.

Mér er fyrirmunað að skilja hvernig hægt er að taka slíka ákvörðun út frá stefnu um að launin séu hófleg eða samkeppnishæf. Þetta telst hvergi hóflegt þar sem ég þekki til. Og samkeppnishæfnin – þetta er meira en fjármálaráðherra fær, sem er æðsti yfirmaður bankans.

Mitt mat er að það þurfi að skrifa þetta út í starfskjarastefnu eins og hjá okkur, en ekki gefa svigrúm til túlkunar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.