Mygla staðfest í skóla og íþróttahúsi Eskifjarðar

Mygla hefur verið staðfest í bæði húsnæði grunnskóla Eskifjarðar og íþróttahúsi staðarins í sýnum sem tekin voru þar fyrir áramót. Fjarðabyggð vinnur í dag að nánari greiningum og viðbrögðum á niðurstöðunum.

Eskfirðingar hafa þrýst á aðgerðir í húsunum eftir ítrekuð lekavandamál þar, einkum í íþróttahúsinu síðustu misseri. Fyrir áramót voru tekin þar myglupróf af verkfræðistofunni Eflu og bárust niðurstöður þess í gærkvöldi.

Samkvæmt tilkynningu sem Fjarðabyggð sendi frá sér fyrir hádegið, meðal annars í kjölfar fyrirspurna Austurfréttar, kemur fram að í skólanum hafi greinst mygla í fundarherbergi, anddyri á annarri hæð skólans og kennslustofu 312 sem er á þriðju hæð. Kennslustofan var tekin úr notkun í haust vegna gruns um myglu.

Í íþróttahúsinu, sem stendur við skólann, greindist mygla í suðausturvegg hússins en ekki úr öðrum sýnum.

Samkvæmt upplýsingum sem fengust hjá Fjarðabyggð í morgun eru starfsmenn framkvæmdasviðs Fjarðabyggðar í dag að fara nánar yfir skýrsluna til að átta sig nánar á umfangi myglunnar og til hvaða aðgerða þurfi að grípa.

Í tilkynningunni kemur fram að vinnan verði í nánu samstarfi við sérfræðinga Eflu, skólastjórnendur, foreldra, nemendur og starfsfólk skólans. Stefnt er að fundi í næstu viku með starfsfólki og sérfræðingum Eflu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.