Skip to main content

Minnihlutaeigendur í Kaldvík knýja fram auka aðalfund

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. jún 2025 13:52Uppfært 05. jún 2025 14:55

Eigendur 30% hlutafjár í fiskeldisfyrirtækinu Kaldvík, sem stundar fiskeldi á Austfjörðum, hafa knúið fram auka aðalfund hjá félaginu. Beiðnin á rætur í deilum um kaupverð Kaldvíkur á laxasláturhúsi og kassaverksmiðju á Djúpavogi.


Samkvæmt tilkynningu sem send var kauphöllunum í Osló og á Íslandi í gær, þar sem Kaldvík er skráð á markaði, hafa eigendur 30% hlutafjár í Kaldvík óskað eftir auka aðalfundi þar sem tekin verður fyrir tillaga um rannsókn á kaupunum.

Ef eigendur 10% þess hlutafjár sem sækir fundinn styður tillöguna þá fer rannsóknin af stað. Í tilkynningunni segir að erfitt sé að spá fyrir um niðurstöðu rannsóknarinnar. Fundurinn verður haldinn þann 19. júní næstkomandi í gegnum fjarfund.

Um hvað snúast deilurnar?


Skömmu fyrir jól tilkynnti Kaldvík að félagið væri í viðræðum um kaup á umbúðaverksmiðju Djúpskeljar og laxasláturhúsi Búlandstinds að fullu. Til að gera langa sögu stutta var Kaldvík fyrst og fremst að kaupa hluti af félögum í eigu Måsøval-fjölskyldunnar eða tengdra aðila, sem eiga stærsta hlutann í Kaldvík í gegnum Austur Holding en það á 57,5%.

Viðskiptin voru réttlætt með því að Kaldvík fengi aukna stjórn á virðiskeðjunni, sveigjanleika í slátrun og myndi spara umbúðakostnað. Kaupin gengu í gegn þann 25. mars í kjölfar hluthafafundar.

Stjórnarmaður sagði af sér í mótmælaskyni


Í byrjun janúar sagði Aðalsteinn Ingólfsson, framkvæmdastjóri Skinneyjar-Þinganess á Hornafirði, sig úr stjórn Kaldvíkur. Hann taldi kaupverðið á starfseminni á Djúpavogi of hátt þannig að aðrir hluthafar í Kaldvík væru hlunnfarnir. Dótturfélag Skinneyjar er næst stærsti hluthafinn í Kaldvík með tæplega 12% hlut. Aðalsteinn fylgdi þessu eftir með bréfi til endurskoðanda Kaldvíkur þar sem hann óskaði eftir rannsókn.

Eftirmaður var kjörinn þremur vikum síðar á auka aðalfundi. Tveir einstaklingar voru í framboði og varð norskur hagfræðingur hlutskarpari með stuðningi Austur Holding gegn íslenskum framkvæmdastjóra sem minni hluthafar buðu fram. Atkvæðin féllu 67-33%

Einn stjórnarmaður metinn vanhæfur


Á sérstökum upplýsingafundi í lok mars var farið yfir kaupin með hluthöfum. Glærukynning sem unnin var fyrir fundinn er aðgengileg í gegnum kauphallirnar. Þar kemur meðal annars fram að ferlið hafi farið af stað síðasta sumar þegar félögin að baki umbúðaverksmiðjunni buðu hana til kaups.

Í yfirlýsingu Aðalsteins voru kaupin kölluð „sjálfafgreiðsluviðskipti“ þar sem þrír stjórnarmenn meirihlutans hefðu fylgt kaupunum í gegn mótatkvæðum tveggja stjórnarmanna minnihlutans. Í glærukynningunni kemur fram að hæfi stjórnarmanna hafi verið metið og aðeins Lars Måsøval verið metinn vanhæfur.

Greitt fyrir viðskiptin með hlutafé


Taldir eru upp þeir utanaðkomandi ráðgjafar sem veittu bæði Kaldvík og sölufyrirtækjunum ráðgjöf við viðskiptin. Loks í byrjun þessa árs vann Deloitte greiningu á bókhaldi sölufélaganna, svokallað „due diligence.“ Þar hafi ekki komið í ljós teljandi áhætta við kaupin né annað varhugavert. Viðskiptin fara fram á genginu 27,6, sem er meðaltal þriggja mánaða hjá Kaldvík. Aðalsteinn sagði greiningaraðila hafa metið gengið hærra.

Í kynningunni er kaupverðið sundurliðað í norskum krónum en heildarviðskiptin eru metin á 190 milljónir norskra króna eða rúma 2,2 milljarða íslenskra króna. Umbúðaverksmiðjan sjálf er metin á 100 milljónir norskar, sláturhús Búlandstinds 50 og húsnæði umbúðaverksmiðjunnar, sem var í sérstöku félagi, á 40 milljónir. Talið er jákvætt fyrir Kaldvík að ekki sé greitt fyrri kaupin í reiðufé heldur alfarið með hlutafé.

Endurfjármögnun og hlutafjáraukning


Ítrekaðir eru kostir um að kaupin spari fé við umbúðakaup og gefi Kaldvík betri stjórn á virðiskeðjunni. Nefnt er að skoðaðir hafi verið aðrir kostir eins og að kaupa kassa frá öðrum birgjum en þeir ekki verið taldir jafn hagkvæmir.

Miðað við að minni hluthafar hafa nú farið fram á auka aðalfund virðist upplýsingafundurinn í mars ekki hafa dugað til að lægja öldurnar.

Í gær var einnig tilkynnt að Kaldvík hefði lokið við endurfjármögnun hjá lánastofnunum sem tilkynnt var um í ársuppgjöri nýverið. Hlutafjáraukning er hafin. Útboðið fer fram á 14 krónur á hlut. Meðal þeirra félaga sem þegar hafa lofað að skrá sig fyrir hlutafé er eignarhaldsfélag Eskju, sem á 2,7% og Austur Holding.