Mikill munur að hafa öflugra skip á makrílveiðunum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 05. sep 2023 13:31 • Uppfært 05. sep 2023 14:22
Makrílvertíðinni lauk hjá Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði í síðustu viku eftir að Hoffell landaði þar tæpum 850 tonnum úr sinni síðustu ferð. Skipið fór aftur út í gær, að þessu sinni til síldveiða. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir öflugt skipið, sem kom fyrir rúmu ári, hjálpa mikið til þegar langt sé að sigla með afla í land.
Hoffellið landaði 7.420 tonnum á vertíðinni sem þýðir að það er fimmta aflahæst meðal makrílveiðiskipa. Það kom til Loðnuvinnslunnar fyrir makrílvertíðina í fyrra og hefur að sögn Friðriks Mars Guðmundssonar, framkvæmdastjóra, reynst afar vel.
„Með þessu skipi getum við komið með meiri afla að landi í mjög góðum gæðum. Skipið er 2.500 rúmmetrar sem þýðir að það getur mjög vel kælt 1.300 tonn af afla.
Nýja skipið er 50% stærra að rúmmáli en það gamla. Við reyndum að vera með 900-1000 tonn í því en vorum farin að ganga á kælivatnið með svo miklu. Það segir sig að það er bylting að vera með svona stórt skip þegar langt er að sækja,“ segir Friðrik.
Allt að 50 tíma sigling á miðin
Hann segir vertíðina hafa gengið ágætlega og miklu munað að stór hluti aflans náðist í íslenskri lögsögu. Makríllinn er flökkustofn sem ósamið er um milli ríkjanna í Norður-Atlantshafi. Þess vegna ætti veiði innan landhelginnar að styrkja samningsstöðu landsins.
En þegar leið á vertíðina í ágúst þurfti að fara lengra eftir aflanum og þá reyndist Hoffellið vel. „Í einum túrnum þurftum við að fara 650 sjómílur aðra leið. Það er um 50 tíma sigling. Þá munar að vera með öflugt skip.“
Það hefur líka áhrif á Loðnuvinnsluna að Hoffellið er eina uppsjávarveiðiskip félagsins. Aðrar útgerðir, til dæmis Eskja og Brim, svo ekki sé minnst á Síldarvinnsluna sem vinnur með Samherja, eru með mörg skip sem skiptast á að veiða og sigla í land. Hoffellið þarf hins vegar alltaf að veiða og sigla svo sjálft til Fáskrúðsfjarðar. „Miðað við það þá gekk vertíðin mjög vel. Við náðum miklu á heimamiðjum í júlí og fórum síðar út í Smugu heldur en á síðasta ári,“ segir Friðrik.
Síldin skammt undan Austfjörðum
Hoffellið reyndist líka vel á loðnuvertíðinni í vetur. „Við náðum í vetur 2.000 tonnum af hrognum út úr afla Hoffells. Það hefur aldrei áður gerst í Íslandssögunni. Skipið er með frábæran kælibúnað sem skiptir miklu þegar 30 tíma sigling er á miðin vestur fyrir Reykjanes eins og á hrognavertíðinni eða þegar íslenska síldin gengur þangað í nóvember og janúar.“
Hoffellið fór út aftur í gær. Yfir helgina fékk það félagsskap í höfninni því Venus NS, uppsjávarveiðiskip Brims frá Vopnafirði, lá þar einnig við bryggju. Venus fór síðan út í morgun og veitir Hoffellinu brátt félagsskap við veiðarnar út af Dalatanga.
„Þetta er bara 3-4 tíma sigling á miðin. Síldin hefur gengið þetta nærri Austfjörðum undanfarin haust. Þetta er norsk-íslensk síld í bland við dálítið af íslenskri. Við tökum nokkra túra núna og síðum síðan eftir íslensku síldinni í nóvember,“ segir Friðrik Mar.