Mikil tækifæri fólgin í beinu flugi til Frankfurt

Framkvæmdastjóri Austurbrúar segir tækifæri sem enn liggi ekki í augum uppi felast í áformuðu áætlunarflugi Condor milli Egilsstaða og Frankfurt næsta sumar. Ljóst sé að Þjóðverjar og ferðaskipuleggjendur þar hafi áhuga á Austurlandi og lengd ferðatímabilsins sýni trúna sem flugfélagið hafi á leiðinni.

Condor, þriðja stærsta flugfélag Þýskalands, hóf í morgun sölu á flugsætum milli Frankfurt og Egilsstaða næsta sumar. Flogið verður vikulega frá miðjum maí fram til loka október. Sambærileg flugáætlun verður fyrir Akureyri.

Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, segir flugið vera afrakstur mikillar vinnu ýmissa aðila við að markaðssetja flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum til alþjóðlegra flugfélaga. Þar hafa farið hvað fremst Isavia, sem rekur flugvellina, Markaðsstofa Norðurlands og Austurbrú.

„Við höfum unnið lengi að þessari markaðssetningu. Þótt Covid raskaði flugheiminum héldum við áfram undirbúnings- og greiningarvinnu. Þetta er vinna sem sést lítið á yfirborðinu þar til fréttirnar eru farnar í loftið, enda ekkert í hendi fyrr en hægt er að byrja að bóka.

Í vetur hefur okkar áhersla verið á Þýskalandsmarkað. Hápunkturinn var í maí þegar við fórum og heimsóttum fjölda ferðaskrifstofa og flugfélög, þar með talið Condor. Þar var grunnurinn að þessum tíðindum í dag lagður. Þetta gerist ekki allt á tveimur mánuðum en lokaspretturinn hefur verið tekinn.“

Eflir samstarf Austur- og Norðurlands

Condor flytur árlega um níu milljónir farþega. Hægt verður að bóka flugið bæði beint í gegnum félagið en ferðaskrifstofur undirbúa sölu pakkaferða til Austurlands. „Condor er flugfélag sem vinnur reglulega með nýja áfangastaði. Við vissum af áhuga þeirra og höfum verið í samskiptum í dálítinn tíma. Við höfum líka unnið mikið með ferðaskrifstofum til að kynna landshlutann og koma á samstarfi um ferðir með beinu flugi til Egilsstaða.

Þetta er samspil og verður ekki að veruleika nema með samvinnu margra. Ferðaskrifstofurnar geta ekki selt ferðirnar nema einhver sé tilbúinn að bjóða upp á flugið. Við höfum fengið góða hjálp frá hagaðilum með þekkingu á þýskum markaði.“

Til Egilsstaða verður flogið á þriðjudögum frá 16. maí 24. október en til Akureyrar á laugardögum frá 13. maí til 28. október. Jóna Árný segir þá staðreynd skapa hvata fyrir aðila á Norður- og Austurlandi til samstarfs.

„Það að Condor bjóði upp á áætlunarflug til beggja valla frá maí og út október skapar möguleika til að fara á milli vallanna. Þar með opnast tækifæri til að búa til fjöldann af nýjum ferðavörum, sem til þessa hafa flestar snúist um að fara hringinn um Ísland. Samstarf ferðaþjónustunnar og Norður- og Austurlandi er gott fyrir en ég segi hiklaust að þetta geti eflt það. Á næstu vikum og mánuðum eigum við eftir að koma auga á tækifæri í þessu flugi sem við sjáum ekki í dag.“

Þjóðverjar góður markhópur

Jóna Árný segir Austurbrú hafa lagt sérstaka áherslu á Þýskalandsmarkaðinn því Þjóðverjar hafi árum saman verið kjölfestan meðal þeirra sem heimsækja Austurland og reyndar Ísland. Í um 200 km radíus frá Frankfurt búa um 38 milljónir manna eða 46% þýsku þjóðarinnar. Gögn sýni að Þjóðverjar dvelji að meðaltali níu daga hérlendis, samanborið við 4,5 daga frá Bretlandi og 6 daga frá öðrum löndum. Þá voru Þjóðverjar um 40% erlendra ferðamanna hérlendis árið 2018.

„Þjóðverjar hafa áhuga á íslenskri náttúru, menningu og sögu og við eigum nóg af henni hér eystra. Þetta er ferðamannahópur sem er tiltölulega sjálfstæður og fljótur að finna upplýsingar en líka duglegur í að nýta sér ýmsa þjónustu, svo sem afþreyingu.

Þeir dvelja lengur hérlendis en aðrar þjóðir og við heyrum í ár að dvalartími þeirra sé að lengjast. Sem landshluti sem vill komast á þann stað að gestir okkar dvelji lengur og ferðist innan svæðis var mjög eðlilegt skref að einbeita okkur að þessum markaði.

Síðast í morgun heyrði ég viðtal við formann Samtaka aðila í ferðaþjónustu (SAF) sem benti á að aðeins lítill hluti þeirra Þjóðverja sem væri á faraldsfæti kæmi til Íslands. Við höfum átt samtal við fjölda ferðaskrifstofa sem hafa jafnvel unnið á íslensk-þýska markaðinum í áratugi, sem segja að það séu mikil tækifæri í að þróa vöru fyrir þennan markað.“

Sala á miðum í flugið hófst í morgun sem þýðir að á næstu vikum og mánuðum þarf að undirbúa markaðssetningu Austurlands í Þýskalandi. „Þjóðverjar bóka gjarnan ferðir sínar næsta sumar á haustin. Ég reikna með að næstu tvo mánuði munum við eiga í miklum samskiptum meðan ferðaskrifstofur eru að þróa sínar vörur. Í vetur aukum við síðan umfjöllun um Austurland á þýskum markaði, tökum á móti blaðamönnum og svo framvegis.“

Langt tímabil sýnir tiltrú Condor

Nokkrum sinnum áður hefur beint áætlunarflug verið reynt milli Egilsstaða og alþjóðlegra flugvalla. Síðan var það breska ferðaskrifstofan Discover the World sem skipulagði beint flug til Lundúna árið 2016. Árið 2007 bauð lággjaldafélagið Iceland Express upp á flug til Kaupmannahafnar og sumarið 2002 stóð þýska flugfélagið LTU fyrir flugi til Düsseldorf. Ekkert þessara fluga varð varanlegt. Jóna Árný bendir hins vegar á að ýmislegt hafi breyst síðan.

„Flugheimurinn er ekki sá sami og áður, hvort sem það er fyrir 20 árum eða fyrir Covid. Condor er mjög öflugt félag sem flýgur til yfir 90 áfangastaða og hefur öflugt sölukerfi og tengingar. Við höfum fengið mjög öflugan samstarfsaðila til að tengja Austurland og Evrópu. Þetta er ekki leiguflug á vegum einnar ferðaskrifstofu heldur eru margar skrifstofur áhugasamar. Við erum líka á nýjum tímum í flugheiminum, það er áhugi á nýjum vörum og ég held að það vinni með okkur.“

Flugið nær fyrst í stað yfir fimm mánuði en Jóna Árný segir markmiðið að ná lengra. „Við höfum væntingar til reglubundins millilandaflugs allt árið. Það er eðlilegt þegar farið er á nýja áfangastaði að byrjað sé yfir sumarið. Í raun finnst okkur þetta tímabil sem Condor hefur sett í sölu ótrúlega langt en félagið færi ekki af stað í svona langt tímabil nema það hefði trú á því. Ef vel gengur þá getur það orðið að framhaldi yfir vetrarmánuðina. Hvort það verður strax veturinn 2023-24 veit ég ekki, það getur tíma að koma á heilsársflugi.“

Gátt út í heim

Flugið opnar Austfirðingum líka tækifæri, þótt þátttaka þeirra sé ekki forsenda þess að flugið gangi eftir. „Markaðurinn hér verður seint undirstaða annars millilandaflugs en einstakra ferða. Það sem skiptir okkur máli er að fá tengingu við flugvöll eins og Frankfurt þar sem hægt er að halda áfram út í heim. Þaðan fljúga 90 flugfélög til um 300 áfangastaða. Þetta er því gríðarleg viðbót við þá ferðamöguleika sem fyrir eru.“

Hún segir helstu innviði sem þurfi fyrir flugið vera til staðar. „Flugvöllurinn sjálfur er klár, síðan þarf gott samstarf við yfirvöld hans, tollgæslu og fleiri. Allir sem að þessu koma eru vanir að vinna saman.“

Sem fyrr segir er tilkynningin í morgun árangur mikillar vinnu við markaðssetningu Austurlands og Egilsstaðaflugvallar. Jóna Árný segir ekki hægt að ræða það nú hvort fleiri séu líklegir til að fylgja Condor eftir. „Við getum ekkert tjáð okkur um það akkúrat núna. Þetta er hraður og flókinn heimur og því erfitt að ræða verkefnin fyrr en eitthvað er fast í hendi. Að baki þessari afurð er mikil vinna og hún heldur áfram. Við einbeitum okkur nú að því að gera þetta vel þannig að allir sem að fluginu koma nái markmiðum sínum. Síðan höldum við áfram.“

Jóna segir fyrstu viðbrögð við tíðindunum í morgun gleðileg. „Við finnum mikinn áhuga og höfum fengið mörg skilaboð. Ég held að margir sjái tækifæri í þessari nýju tengingu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.