Methagnaður Loðnuvinnslunnar: Allt gekk vel

Hagnaður Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði í fyrra nam tæpum 3,5 milljörðum króna. Framkvæmdastjóri segir góða loðnuvertíð hafa gefið tóninn fyrir gott ár en annars hafi öll starfsemi gengið vel.

„Það gekk allt vel. Loðnuvertíðin var góð og hrognaverð mjög hátt. Skipin settu met í veltu og öll vinnsla gekk mjög vel,“ segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar.

Afkoma síðasta árs var kynnt á aðalfundi Loðnuvinnslunnar og Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga, sem á 83% í útgerðarfyrirtækinu, í síðust viku. Hagnaður var 3,48 milljarðar, samanborið við 1,25 árið áður og er árið því hið langbesta fjárhagslega í sögu Loðnuvinnslunnar.

Tekjur félagsins jukust um 45% milli ára og voru 18,18 milljarðar í fyrra. Veltufé frá rekstri fór úr 1,57 milljörðum í 4,5 milljarða. Fjárfest var fyrir um þrjá milljarða, þar af fyrir 2,2 milljarða í endurnýjum uppsjávarveiðiskipsins Hoffells.

„Skiptin gengu vel því við gátum sett eldra Hoffell upp í kaupin. Nýja skipinu hefur síðan vegnað mjög vel. Við áætlun þó ekki miklar fjárfestingar í ár,“ segir Friðrik.

Eignir félagsins í árslok voru metnar á tæpa 15 milljarða og hafa þar með fimmfaldast frá níu árum, var tæpir þrír milljarðar í lok árs 2013. Á ársfundinum var tilkynnt um 140 milljóna arðgreiðslu, sem fer mest til Kaupfélagsins sem aftur er í eigu bæjarbúa og úthlutun 30 milljóna í styrki til félagasamtaka á Fáskrúðsfirði.

„Félaginu hefur gengið mjög vel í langan tíma. Við erum á þessum níu árum lagt 300 milljónir inn í samfélagið. Af því samfélagið á fyrirtækið þá byggist félagið hratt upp þegar vel gengur því arðurinn rennur ekki út úr því,“ segir Friðrik.

Þessi níu ár eru sá tími sem hann hefur verið framkvæmdastjóri. Hann tilkynnti nýverið að hann myndi láta af störfum í haust. Leit stendur yfir að arftaka hans.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.