Orkumálinn 2024

Menningarhús á Héraði tilbúin 2022

Gengið hefur verið frá samkomulagi milli mennta- og menningarmálaráðuneytisins og sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs um uppbyggingu menningarhúsa á Egilsstöðum. Framkvæmdir gætu hafist strax á þessu ári.

Með samkomulaginu sem Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og Björn Ingimarsson, bæjarstjóri, undirrituðu fyrir tveimur vikum skuldbindur ríkið sig til að leggja fé í verkið sem mun berast á árunum 2020-2022.

Uppbyggingin felst í að byggja nýja burst á Safnahúsið og ljúka framkvæmdum á Sláturkostnaður. Heildarkostnaður er metinn á um 500 milljónir, ríkið leggur til 300 milljónir og sveitarfélagið 200.

Heimamenn eru orðnir nokkuð langeygir eftir framkvæmdum og brenndir af fyrri fyrirheitum. Menningarhúsi var fyrst lofað í Egilsstaði fyrir um 20 árum þegar þáverandi ríkisstjórn hét því að byggja fimm menningar hús á landinu, þar á meðal á Egilsstöðum. Þrjú þeirra, á Ísafirði, Akureyri og í Vestmanneyjum eru risin og tryggð hefur verið fjármögnun á því fjórða, sem er á Sauðarkróki.

Haustið 2016 skrifaði Illugi Gunnarsson, þá fráfarandi ráðherra, undir viljayfirlýsingu en henni var ekki fylgt eftir með fjármögnun.

Talsmenn samningsins sem Austurfrétt ræddi við lögðu áherslu á að nú hefði verið stigið skref sem ekki áður hefði verið tekið og komið á skuldbindandi samkomulag. Þá sé að finna setningu í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára um verklok á síðustu tveimur menningarhúsunum.

Sem fyrr segir mun ráðuneytið greiða sinn hluta á þremur árum, 50 milljónir 2020, 150 milljónir 2021 og 100 milljónir 2022 þegar til stendur að opna húsið.

„Þetta er hátíðarstund fyrir Héraðið og allt landið. Það skiptir máli að við höfum samkomuhús þar sem menningin nær að blómstra. Við sjáum hvernig hin menningarhúsin hafa náð að auðga mannlífið á viðkomandi stöðum. Menning er einn af þeim grunnþáttum sem þurfa að vera til staðar þannig að íbúunum líði vel,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Fljótsdalshérað hefur þegar lagt til um 100 milljónir í verkið með hönnun og endurbótum á Sláturhúsinu. Þá er til skoðunar aðkoma Landsvirkjunar að verkinu með Ormsstofu í Sláturhúsinu og gæti hún orðið til að framkvæmdir hefjist strax næsta vetur.

Björn Ingimarsson segir að önnur næstu skref verði að ljúka hönnun bygginganna og ákveða svo á hvorum staðnum byrjað en sveitarfélagið gerir ráð fyrir að leggja til sína fjármögnun á næstu tveimur árum. Ákveðið forgangsmál sé að byrja á burstinni við Safnahúsið til að leysa húsnæðisvanda Minjasafns Austurlands.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.