Makrílvertíðinni lokið hjá Eskju
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 30. ágú 2023 11:30 • Uppfært 30. ágú 2023 11:30
Makrílveiði ársins er lokið hjá Eskju. Guðrún Þorkelsdóttir landaði 700 tonnum í gær og kláraði þar með kvótann. Markaður með afurðir til manneldis er heldur erfiðari en í fyrra.
Skip Eskju hafa síðustu daga komið inn eitt af öðru úr sínum síðustu veiðiferðum. Fyrst komu Jón Kjartansson og Aðalsteinn Jónsson með um 1100 tonn hvor áður en Guðrún sló botninn í vertíðina.
Skipin veiddu í Smugunni, um 340 sjómílur frá heimahöfn. Nokkur íslensk skip eru enn að veiðum þar en almennt er vertíðin að klárast. „Fiskurinn var allt í lagi. Þetta var stór fiskur, um 530-40 grömm og lítil áta í honum,“ segir Baldur Marteinn Einarsson, útgerðarstjóri Eskju.
Hann segir vertíðina hafa verið ágæta. „Það var lúxus að ná að veiða um helming kvótans í íslenskri lögsögu. Við fórum ekki í Smuguna fyrr en í byrjun ágúst. Makríllinn fer yfir stórt svæði og það getur verið erfitt að finna hann en það gekk ágætlega.
Markaðurinn hefur verið upp og ofan. Manneldismarkaðurinn er erfiðari en í fyrra. Ég kann ekki að skýra hvers vegna, mögulega er það ástandið í heimsmálunum. Við frystum samt um helminginn til manneldis en síðan fór töluvert í bræðslu.“
Síldveiði er næst á dagskrá austfirsku útgerðanna. Vinnsla er þegar hafin hjá Síldarvinnslunni en sem stendur er skip hennar, Barði, eitt á miðunum á Héraðsflóadýpi. Ásgrímur Halldórsson frá Hornafirði er á leið þangað. Skip Eskju verða gerð klár á næstu dögum.
„Jón Kjartansson fer út á laugardag og við stefnum á að landa á mánudag. Síldin er örstutt fyrir utan, það er um fimm tíma sigling á miðin á Héraðsflóadýpi og úti fyrir Borgarfirði. Við verðum í síldinni út september. Vonandi verður þetta góð vertíð því síldin hefur gengið ágætlega síðustu ár. Síðan tekur kolmunninn við í október.“