Leitað að flugvél milli Skriðdals og Fljótsdals
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 09. júl 2023 18:31 • Uppfært 09. júl 2023 19:19
Björgunarsveitir af stórum hluta Austurlands voru kallaðar út upp úr klukkan hálf sex eftir að boð bárust frá neyðarsendi flugvélar.
Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu er búið að kalla út sveitir frá Djúpavogi norður á Eskifjörð. Þær stefna upp á Öxi en leitarsvæðið er þar vestur af.
Áætlunarvél Icelandair, á leið austur í Egilsstaði, flaug þrjá hringi yfir Geitdalsafrétt samkvæmt ferli hennar úr FlightRadar áður en hún hélt áfram til lendingar á Egilsstöðum skömmu fyrir klukkan sjö. Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni stendur til að kanna nánar upplýsingar sem fengust úr þar.
Þyrla frá Landhelgisgæslunni er á leiðinni austur sem og ferðaþjónustuþyrla úr Möðrudal.
Um er að ræða fjögurra sæta flugvél af gerðinni Cessna 172. Ekki hefur verið staðfest hve margir voru um borð í henni.
Fyrstu viðbragðsaðilar á vegamótum Breiðdalsheiðar og Axar um klukkan 18:30 í dag. Mynd: Aðsend