Kaupa flotkvíar til að grípa olíu frá El Grillo
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 04. mar 2022 14:18 • Uppfært 04. mar 2022 14:23
Íslenska ríkið hefur ákveðið að ráðast í aðgerðir á næstunni til að koma í veg fyrir mengun frá flaki olíubirgðaskipsins El Grillo, sem legið hefur á botni Seyðisfjarðar frá í seinni heimsstyrjöld. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra kynnti aðgerðirnar á ríkisstjórnarfundi í morgun.
Þetta kemur fram í tilkynningu ráðuneytisins. Olíumengun frá skipinu hefur verið vandamál alla tíð, þrátt fyrir ýmsar aðgerðir.
Síðasta sumar greindist mengun og setti umhverfisráðuneytið þá á fót vinnuhóp, með þátttöku Umhverfisstofnunar, Landhelgisgæslunnar og Múlaþings, auk ráðuneytisins, til að móta tillögur til að bregðast við líklegri mengun frá flakinu.
Afrakstur þeirrar vinnu er að ákveðið hefur verið að kaupa flotkvíar til að fanga olíubrák frá El Grillo, ef olía berst áfram upp á yfirborðið. Hafnaryfirvöld á Seyðisfirði munu hafa umsjón með uppsetningu á búnaðinum.
Í vor verður einnig steypt fyrir sprungur á tveimur tönkum skipsins til að stöðva frekari olíuleka. Landhelgisgæslan heldur utan um það. Árið 2020 var steypt upp í sprungur, sem tókst vel en nú lekur á nýjum stöðum. Vonast er til að tekist hafi að finna alla helstu staði þar sem veikleikar eru, þannig að viðgerðirnar haldi um nokkurn tíma.
Reyna að finna endanlega lausn
Samhliða þessu verður farið í viðræður við erlenda sérfræðinga um mögulega langtímalausn til að koma í eitt skipti fyrir öll í veg fyrir mengun frá El Grillo. „Ljóst er að þar er um flókið verkefni að ræða, þar sem aðstæður við flakið eru erfiðar; meðal annars eru skotfæri nálægt tönkunum sem geta skapað hættu við aðgerðir,“ segir í tilkynningunni.
„Ég vonast til að þessar aðgerðir komi í veg fyrir olíumengun á næstu árum frá El Grillo og dragi úr tjóni ef olía leitar upp þrátt fyrir viðgerðir,“ er haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
„Við munum jafnframt leita leiða til að tryggja framtíðarlausn, þannig að engin hætta sé á leka. Það hefur verið gott samstarf við heimamenn og aðra í þessu máli og ég veit að það mun haldast áfram.“
Kostnaður við aðgerðirnar og kaup á flotkvíunum nemur um 50 milljónum króna. Hann er greiddur af ráðuneytinu.