Kassaverksmiðjan á Djúpavogi kominn á fulla ferð
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 22. júl 2022 10:46 • Uppfært 22. júl 2022 10:48
Kassaverksmiðja Bewi-Iceland á Djúpavog var gangsett í síðasta mánuði. Verksmiðjustjóri segir enn um prufukeyrslu að ræða þótt hún sé keyrð nærri fullum afköstum.
„Fyrsti kassinn kom út föstudaginn 17. júní. Vikuna á eftir vorum við farin að geta sent kassa niður í Búlandstind,“ segir Jón Þór Jónsson, verksmiðjustjóri.
„Við framleiðum það sem Búlandstindur þarf núna. Það gengur upp og ofan, það er verið að fínstilla vélarnar og komast fyrir byrjunarörðugleika eins og yfirleitt er þegar nýr búnaður er gangsettur,“ bætir hann við.
Bygging 2700 fermetra verksmiðjuhússins hófst í júní í fyrra. „Það er eftir að klára ákveðna hluti, bæði í húsinu sjálfur og í lóðinni. Það bíður til haustsins,“ segir Jón Þór.
Við bestu skilyrði afkastar verksmiðjan um 600 kössum á klukkutímann. Fjórir starfsmenn á einni vakt, um tíu tímar, halda verksmiðjunni gangandi fyrst um sinn. Ef þörf er á er hægt að fjölga starfsfólki til að bæta við vöktum.
Hæpið er að það verði strax. Laxaslátrun verður á fullu hjá Búlandstindi á Djúpavogi fram í haustið en hlé er fyrirséð á henni þar sem öll eldissvæði á Austfjörðum verða tæmd í von um að ráða niðurlögum IPA-veirunnar. Útlit er fyrir að langt verði liðið á árið 2023 þegar slátrun fer aftur á fullt og þar með kassaframleiðslan.
Aðstandendur kassaverksmiðju Bewi-Iceland og Búlandstinds með lax í einum af fyrstu kössunum. Mynd: BEWI/Jóna Kristín