Jökla „loks komin á kortið“ sem gjöful veiðiá
Þó löngum hafi veiðimenn komist í ágætar álnir í Jöklu síðan hún breyttist í ferskvatnsá í kjölfar byggingar Kárahnjúkavirkjunar er það mat manna að það sé nú fyrst sem hún er raunverulega komin á kortið sem gjöful veiðiá bæði innanlands og utan.
Til marks um það er sú staðreynd að síðastliðið sumar voru það erlendir aðilar sem keyptu yfir 70 prósent veiðileyfa í ánni en hún gaf þá rúmlega 800 laxa þrátt fyrir töluverða kuldatíð almennt austanlands. Það er þriðja besta veiðiárið í ánni frá upphafi.
Þröstur Elliðason, hjá veiðifélaginu Strengjum, sem selur veiðileyfi í ánna og heldur úti kjarnmikilli þjónustu í veiðihúsum við Kaldá, segir að það fimmtán ára starf sem unnið hefur verið eftir að án breyttist sé nú loks að skila sér fyrir alvöru. Til þess hafi þó þurft að kosta töluverðu til.
„Veiðimenn eru vanir góðri þjónustu í öllum betri laxeiðiám og við höfum gert okkar besta til að bæta þjónustu og upplifun fólks. Jökla er sannarlega að vekja athygli erlendis og hér heima og nú loks talað um hana sem raunverulegan góðan kost í laxveiði. Við eyddum 20 til 30 milljónum til að bæta aðstöðuna í veiðuhúsinu síðasta sumarið og ætlum að eyða svipuðum upphæðum í ár í viðhald og slíkt. Á það ber að líta að Jökla er ekki beint svona í alfararleið ólíkt mörgum öðrum slíkum ám og þess vegna sérstaklega mikilvægt að fólk sem kemur oft langar leiðir fái góða þjónustu. Enda er það svo að meðan þetta 10 til 15 veiðimenn séu á staðnum á hverjum tímapunkti þá er líka svipaður fjöldi fólks sem vinnur hjá okkur við að halda þjónustustiginu góðu.“
Þó Jökla sé kannski ekki í eins mikilli alfararleið og margar aðrar laxveiðiár landsins eru engum blöðum um að fletta að náttúrufegurðin meðfram allri ánni á engan sinn líka. Mynd Strengir.