Jökla í hóp bestu laxveiðiáa landsins
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 15. ágú 2023 15:33 • Uppfært 15. ágú 2023 15:34
Þröstur Elliðason hjá Veiðiþjónustunni Strengjum hefur undanfarin ár unnið að því að rækta upp Jökulsá á Dal eða Jöklu sem laxveiðiá. Sú uppbygging hefur gengið vonum framar og gæti gengið enn betur ef ekki kæmi jökulvatn í ána síðari hluta sumars.
Með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar var jökulvatnið tekið úr ánni mestan hluta ársins og leitt austur í Jökulsá í Fljótsdal og Lagarfljót. Þar með varð Jökla að tærri bergvatnsá sem skapaði skilyrði til laxaræktunar.
Þröstur hefur lengi starfað eystra því hann var áður með Breiðdalsá á sínum snærum en nýir aðilar hafa nú tekið við henni. Hann er uppalinn í Reykjavík en var sendur í sveit þrjú sumur í Breiðdal sem barn. þar „Ég minn allra fyrsta lax í Breiðdalsá. Síðan þá hef ég eiginlega verið dálítið fastur þarna fyrir austan,“ segir hann.
Hann menntaði sig síðan í fiskifræðum og fiskeldi erlendis en hefur nær alla tíð starfað við laxveiðina sem hann segir jafnframt sitt aðaláhugamál. Hann ræktaði fyrst upp Rangá, síðan Breiðdalsá og nú Jöklu.
„Það hefur svona verið mín ástríða lengi vel að byggja upp árnar fremur en að vera í slag um þessar vinsælu ár landsins. Þar á ég við að byggja bæði upp veiðina sjálfa nægilega til að freista veiðimanna, en jafnframt að bjóða upp á þá þjónustu sem menn eru almennt farnir að krefjast í veiðiferðum. Það er að segja góð veiðihús með alla þjónustu og það sem næst veiðistað og að það sé góð veiði þegar fólk mætir á staðinn. Þetta snýst um sleppingar og ræktun og góða þjónustu eins og í öllu öðru nú til dags.“
Yfirfallið truflar veiðina
Þröstur hefur undanfarin ár einbeitt sér að Jöklu sem hann segir afar spennandi laxveiðiá. „Það kom í ljós að náttúruleg skilyrði í Jöklu eru betri en menn bjuggust við, sem merkir að það þarf ekki að sleppa eins mörgum seiðum og áður var mælt með. Það aftur merkir að það næst sjálfbærni í ánni fyrr en ella.“
Þeir sem hafa veitt í Jöklu undanfarin ár láta vel af, en Þröstur segir Íslendinga suma setja fyrir sig hversu langt sé að fara og þar er yfirleitt um höfuðborgarbúa að ræða.
„Mörgum þykir það langt að fljúga eða aka til Egilsstaða og svo áfram 50 kílómetra út í Jökulsárhlíð þar sem veiðihúsin eru. Erlendir veiðimenn kippa sér ekkert upp við þetta, en þetta er nokkuð sem þarf að hafa í huga þegar Jökla er kynnt.
Jökla gæti verið ein besta laxveiðiá landsins ef hægt væri að veiða í henni þrjá mánuði ársins eins og í öðrum helstu laxveiðiám í landinu. Þar er yfirfallið vandamálið síðla sumars, yfirleitt seint í ágúst, og það truflar veiðina töluvert því miður og takmarkar þann tíma sem hægt er að veiða mikið umfram aðrar ár.
Ég er líklega einn af fáum mönnum sem óskar sér köldu sumri og norðankulda seint að sumri því það tefur að lónið fyllist og þurfi að fara á yfirfall. Ég nánast bölva sólinni þegar hún sést síðsumars því meiri sól og hiti þýðir að dæla þarf fyrr úr lóninu og þá er öll veiði samstundis fyrir bí.“
Tíminn takmarkaðist í ár þar sem Jökla fór á yfirfall í lok júlí og hefur aðeins einu sinni gert það svo snemma. Veiðin hefur samt haldið áfram og gengið ágætlega í hliðarám. Samkvæmt tölum frá Landssambandi stangveiðifélaga voru 433 laxar komnir á land úr Jöklu og Fögruhlíðará í síðustu viku sem þýðir að áin er í tíunda sæti yfir þær sem skilað hafa mestu í ár. Laxarnir urðu flestir 860 árið 2020 en 802 í fyrra.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.