Janus farinn frá Reyðarfirði

Uppsjávarveiðiskipið Janus, áður Börkur NK, er farið úr höfninni á Reyðarfirði þar sem það hefur verið í tæp tvö ár. Búið er að selja skipið til Mexíkó.

Frá þessu er greint á heimasíðu Síldarvinnslunnar þar sem farið er yfir sögu skipsins.

Skipið var upphaflega smíðað í Noregi árið 1968 en var keypt til Síldarvinnslunnar 1973, einkum ætlað til loðnu- og kolmunnaveiða. Skipið fékk viðurnefnið Stóri-Börkur og kom fljótt með mesta afla sem íslenskt skip hafði þá komið með til lands til heimahafnar í Neskaupstað.

Þrátt fyrir að skipið hafi veitt ríflega af loðnu gekk treglega að finna því næg verkefni. Um tíma stóð til að selja skipið en þess í stað veiddi það á fjarlægum miðum; loðnu í Barentshafi, hrossamakríl undan ströndum norðvestur Afríku og síld og makríl í Barentshafi.

Þá sigldi það um árabil með ísvarinn fisk til Grimsby í Englandi á sumrin og flutti til baka ódýra olíu sem togarar Síldarvinnslunnar notuðu. Með tímanum tókst þó að finna skipinu næg verkefni á nálægari miðum.

Í janúar 1998 kom skipið til Norðfjarðar efir að hafa gengist undir gagngerar breytingar í Póllandi, þar sem skipið var meðal annars lengt um tæpa 15 metra. Segja má að að eftir breytingarnar hafi ekki verið mikið eftir af hinu upprunalega skipi.

Árið 2012 keypti Síldarvinnslan enn stærri Börk og fékk gamla skipið þá nafnið Birtingur. Árið 2016 var það selt til Póllands og fékk nafnið Janus. Það veiddi kolmunna þá í sumarið en lagt ári síðar. Fyrst var það bundið við bryggju á Seyðisfirði en flutt til Reyðarfjarðar árið 2018.

Þar hefur skipið verið síðan þar til í lok mars að það var sent til Akureyrar þar sem það verður gert klárt fyrir nýja eigendur, fiskeldisfyrirtæki í Mexíkó. Ný heimahöfn verður í Ensenada á Kyrrahafsströndinni. Siglingin þangað verður um 7000 sjómílur og er búist við að hún taki rúmlega 26 daga.

Í frétt Síldarvinnslunnar kemur fram að skipið hafi á þeim 43 árum, sem það var gert út af Síldarvinnslunni, veitt rúma eina og hálfa milljón tonna af fiski. Þar segir líklegt að ekkert annað íslenskt fiskiskip hafi fært jafn mikinn afla að landi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.