Íbúi vill eitthvað fyrir almenning í Gamla ríkinu

Nú stendur yfir hugmyndasamkeppni um framtíð Gamla ríkisins á Seyðisfirði. Pétur Kristjánsson íbúi í bænum, sem hefur sterkar taugar til hússins, segir að hann vilji helst sjá eitthvað fyrir almenning í Gamla ríkinu í framtíðinni.

„Það væri gaman ef starfsemin í framtíðinni í Gamla húsinu myndi tengjast bryggjunni á bak við það eins og til dæmis kaffihús.“ segir Pétur í samtali við Austurfrétt. „Síðan mætti hugsa sér að íbúðin sem er í risi húsins yrði leigð út til listafólks eða rithöfunda.“

Pétur segir að Gamla ríkið sé flott hús með skemmtilega staðsetningu. Það sé að vísu ekki fjölskylduvænt þar sem engin garður er í kringum það. „Möguleikarnir á notkun hússins eru hinsvegar margvíslegir.“ segir hann.

Gamla ríkið var áður vínbúðin á Seyðisfirði - og reyndar lengi sú eina á Austurlandi - eins og nafnið gefur til kynna. Húsið var byggt árið 1918 undir verslunarrekstur og þykir hafa mikið sögulegt gildi varðandi stíl, gerð og þá starfsemi sem í því hefur verið um langt skeið. Lengst af hefur verslun ÁTVR verið þar eða frá 1959 og eru afgreiðsluborð og hillur í húsinu með elstu og heildstæðustu verslunarinnréttingum á landinu.

Íslenska ríkið afhenti Seyðisfjarðarkaupstað húsið í sumar ásamt 100 milljónum króna til endurbóta á ytra byrði þess. Á vegum kaupstaðarins stendur nú yfir hugmyndasamkeppni um framtíðar nýtingu hússin. Skilafrestur fyrir hugmyndir er til 15. september.

Á heimasíðu Seyðisfjarðarkaupstaðar  segir að með húsinu fylgi þær kvaðir að aðgangur að verslunarinnréttingunum þurfi að vera opinn fyrir bæjarbúa a. m. k. yfir sumarmánuðina.  Minjavernd sér um alla hönnun og eftirfylgni fyrir ríkissjóð. Stefnt er að því að húsið verði tilbúið til afhendingar ári eftir að endurbætur hefjast.

Pétur og Þóra Guðmundsdóttir, hollvinir hússins, við afhendingu þess til Seyðisfjarðarkaupstaðar fyrr í sumar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.