Íbúðakjarni á Seyðisfirði verði tilbúinn í mars

Vonast er til að kjarni með átta íbúðum, ætluðum 55 ára og eldri, verði tilbúinn í mars á næsta ári. Brák, húsnæðissjálfseignarstofnun í eigu sveitarfélagaá landsbyggðinni, hefur tekið við utanumhaldi verksins. Tugir íbúða á vegum Brákar og Leigufélagsins Bríetar eru á uppleið á Austurlandi næsta árið.

Íbúðakjarninn á Seyðisfirði hefur átt sér langan aðdraganda og heimafólk orðið langeygt eftir honum enda þröngt á húsnæðismarkaðinum eftir skriðuföllin í desember 2020. Vinna við kjarnann var þá komin af stað en fleiri en eina tilraun þurfti til að finna honum hentugt svæði í bænum.

Stofnframlagi frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) var úthlutað árið 2020. Við því tók sveitarfélagið sem samdi við Bæjartún hses., dótturfélag Hrafnshóls sem byggt hefur íbúðir víða um land síðustu misseri. Á meðan framkvæmdir töfðust vegna vandræða með staðsetningu hækkaði byggingakostnaður, auk þess sem jarðvinna varð dýrari því dýpra er niður á fast á gamla fótboltavellinum, þar sem kjarninn á að rísa, en fyrri staðsetningum. Þetta varð til þess að stofnframlagið stóð ekki lengur undir byggingakostnaði. Síðustu vikur og mánuði hefur verið leitað leiða til að leysa þennan hnút.

Sú lausn virðist í sjónmáli því fyrr í þessum mánuði var samþykkt að Brák tæki við verkefninu. Brák er í eigu sveitarfélaga á landsbyggðinni og með sjálfstæða stjórn en starfsfólk Leigufélagsins Bríetar ehf.., sem er í eigu ríkisins og nokkurra sveitarfélaga, annast þjónustuna. Drífa Valdimarsdóttir, framkvæmdastjóri Bríetar, segir málefni íbúðakjarnans á Seyðisfirði hafa verið rædd á stjórnarfundi Brákar í gær.

Við yfirtökuna fær Brák stofnframlögin endurútreiknuð og eftir það eiga þau að duga fyrir framkvæmdinni. Hnúturinn ætti því að leysast. Yfirtaka Brákar breytir því ekki að áfram er reiknað með að Hrafnshóll byggi húsið á sama hátt og áður var fyrirhugað. Drífa segir að vonast sé til að húsið verði tilbúið í mars á næsta ári, ef allt gengur samkvæmt áætlun.

Hyllir undir skóflustungu raðhúss

Um leið var samþykkt að Brák tæki við ábyrgðinni af tíu íbúða fjölbýlishúsi við Selbrún í Fellabæ, sem Múlaþing hafði einnig samið við Bæjartún um. Áætlanir um þá byggingu eru að öðru leyti óbreyttar, reiknað er með að Hrafnhóll byggi það og framkvæmdir hefjist í lok sumars eða haust. Komi ekki frekari vandkvæði upp ætti það hús að vera tilbúið í júní á næsta ári. „Við kappkostum að halda okkur við þessa tímalínu,“ segir Drífa.

Þessu til viðbótar hefur Bríet áformað byggingu fjögurra íbúða raðhúss á gamla íþróttavellinum á Seyðisfirði. Drífa segir verið að klára frágang lóðar hjá Múlaþingi og stefnt sé á fyrstu skóflustungu á næstu vikum. MVA byggir húsið.

Skriður á framkvæmdum í Fjarðabyggð

Á Fáskrúðsfirði hefur Bríet keypt nýtt parhús sem auglýst verður til útleigu á næstu dögum. Húsið er byggt af Búðingum ehf., en í maí var samið við fyrirtækið um að byggja fjögurra íbúða raðhús í Neskaupstað og parhús á Breiðdalsvík.

„Ég er bjartsýn á að skriður fari að komast á þessi verkefni. Við höfum verið að vinna í lóðamálum og tökum stöðuna með Búðingum í næstu viku. Þessar íbúðir verða tilbúnar einhvern tíman á næsta ári,“ segir Drífa.

Á Reyðarfirði er Hrafnshóll að ljúka við smíði fimm íbúða raðhúss á Búðarmel. Gert er ráð fyrir að Brák eignist það hús þegar það verður tilbúið í haust. Sama fyrirkomulag verður væntanlega haft á fjögurra íbúða raðhúsi sem fyrirtækið ætlar að byggja í Neskaupstað. Framkvæmdir eiga að hefjast í haust og húsið tilbúið á næsta ári.

Þá hefur Brák nýverið fengið úthlutað stofnframlagi til að byggja tvær íbúðir á Eskifirði. Það verkefni er enn á byrjunarstigi. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.