Skip to main content

Hvalavinnsla forsenda landnáms að Stöð?

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. jún 2022 13:46Uppfært 27. jún 2022 13:47

Fyrstu niðurstöður eDNA-greiningar á jarðefnum úr fornleifauppgreftrinum í Stöð á Stöðvarfirði benda til þess að þar hafi verið mikil vinnsla á hvalaafurðum. Tekjur af þeirri auðlind kunna að hafa ráðið miklu um landnám þar.


Fornleifauppgreftri sumarsins lauk í síðustu viku og gekk vel að sögn stjórnandans, Bjarna F. Einarssonar fornleifafræðings á Fornleifafræðistofunni, þótt ekki væri grafið nema í um þrjár vikur.

Fornleifauppgröfturinn hefur snúist um tvo víkingaaldarskála sem byggðir eru nokkurn vegin hvor ofan á öðrum. Eldri skálinn er talinn vera frá því um 800-870 en sá yngri reistur skömmu síðar. Samfelld byggð virðist hefjast með yngri skálanum en Bjarni segir líkur á að búið hafi verið í eldri skálanum aðeins í byrjun eiginlegs landnáms, til dæmis meðan gripahús hafi verið byggð. Síðan hafi nýr skáli verið reistur þegar sá eldri hafi verið orðinn lúinn eða óhagkvæmur.

Í sumar voru rannsökuð tvö athafnasvæði utan skálanna. Ekki var lokið við þau en gleggri mynd fékkst af þeim. Talið er að annað þeirra hafi verið ruslahaugur en hitt einhvers konar vinnslusvæði. Þá var þess freistað að finna naust en það tókst ekki. Bjarni segir víst að sá höfðingi sem nam land í Stöð hafi átt skip og því sé líklegt að naust hafi verið á svæðinu.

DNA greining á jarðvegi

Eitt helsta markmið sumarsins var svokölluð eDNA sýnataka sem Bjarni segir hafa tekist vel. Aðferðin er nýleg en með henni má greina ítarlega jarðvegssýni, svo sem leifar plantna, baktería og dýra. Til þess komu tveir vísindamenn frá Kaupmannahafnarháskóla, stjórnandinn Anders Johannes Hansen prófessor og deildarstjóri og nýdoktorinn Wesley Randall Farnsworth.

Sýnatakan í Stöð er hluti af stóru norrænu verkefni þar sem rannsakaðar eru umhverfisbreytingar frá ísöld fram til nútímans. „Við dettum inn á þetta stutta tímabil þar sem maðurinn kemur til Íslands og byrjar að hafa áhrif á umhverfi sitt. Við getum lesið í þann tíma sem maðurinn var hér og breytingar með honum, þar til um 1000 þegar bærinn er fluttur ofar eða þangað sem hann stendur í dag,“ útskýrir Bjarni en sýni voru tekin úr svæðinu sem tilheyrir eldri skálanum og eldri sýni úr yngri skálanum verða einnig greind.

Niðurstöður verkefnisins munu ekki liggja fyrir fyrr en í fyrsta lagi eftir tvö ár en þó hefur þegar verið lesið út úr frumniðurstöðum í Stöð úr sýnum sem tekin voru 2020. Athyglin beinist einkum að dýraleifum, hvort þau hafi verið í eldri skálanum. Svo virðist ekki hafa verið samkvæmt þessum frumniðurstöðum.

„En þegar við erum komin inn í landnámsfasann eru þeir víðirunnar sem voru áður á svæðinu horfnir og í staðinn komið gras. Sé það rétt þá er það sterk vísbending um að skepnurnar hafi komið samhliða yngri skálanum,“ segir Bjarni.

„Ég sætti mig við að það finnist leifar frá kindum í eldri skálanum. Það var þekkt að þær voru skildar eftir yfir vetur á stöðum sem fólk kom aftur á ári síðar, til að eiga ferskan mat og ull ef eitthvað gerðist á leiðinni. Ummerki um kýr mega ekki finnast því þá er kenningin hrunin,“ bætir hann við.

Hvalalýsið verðmæt afurð

Frumniðurstöðurnar hafa líka gefið mikilsverðar vísbendingar um af hverju eftirsóknarvert var að nema land í Stöðvarfirði. „Þær benda til að í upphafi hafi verið mikill hvalur á búsvæðinu og svo er áfram í landnáminu. Þeir sem voru í útstöðinni unnu líklega lýsi úr hval og því var haldið áfram eftir landnámið. Nú spyrjum við okkur að því hvort sama fólkið hafi nýtt útstöðina og síðar flutti hingað til að nema land. Því getur DNA greiningin mögulega svarað.“

Hvalavinnslan stemmir við kenninguna að landnemarnir hér hafi verið höfðingjar sem áttu skip. Á þeim var hægt að sigla með hvalalýsið, sem var mjög verðmætt, á markaði í sístækkandi borgum í norðanverðri Evrópu. Verðmæti hvalaafurðanna kann að hafa laðað landnemana að Austfjörðum.

„Hvalir voru áður tíðari í höfunum hér í kring og þar sem Ísland hafði verið ósnert frá ísöld má búast við að hér hafi verið mikið um rekna hvali. Mögulega kann það að vera hvatinn fyrir landnáminu hér. Það veltur á auðlindum hvers landshluta en það er rökrétt að þær séu hvatinn. Ég hef löngum haldið að rostungatennur hafi verið meðal hvatanna fyrir landnáminu á Vesturlandi og hér gæti það hafa verið hvalurinn.“

Mikið af skörpum verkfærum

Stöð er fyrir nokkru orðinn sá fornleifafundur frá landnámstíma sem skilað hefur flestum gripum. Heldur færri gripir fundust í ár en Bjarni segir það viðbúið, sem og að þeir urðu einsleitari. „Áfram finnst ákveðnir lykilgripir, steinskífur, jaspísar, slegnir glerhallar og brýni.

Þetta er orðinn langþéttasti staður landsins hvað brýnin varðar. Við fengum í sumar ásláttarsérfræðing sem greindi brotin úr þeim. Frumniðurstaða hans er að fólkið að Stöð hafi flutt inn hráefni til brýnisgerðar, langar stangir sem voru grófar og hráar en síðan slegnar til á staðnum til að fá þá lengd og breidd sem notandinn vildi. Þetta er nýmæli hérlendis því yfirleitt hefur verið talið að brýnin hafi verið flutt inn tilbúin.

Þá kviknar önnur spurning, af hverju þurfti svona mikið af skerandi verkfærum. Þá komum við aftur að hvalaskurði sem virðist hafa verið umtalsverður þarna,“ segir Bjarni.