Hófu smitrakningu eftir að berklasmit greindist á Fáskrúðsfirði
Sóttvarnarhópur Heilbrigðisstofnunar Austurlands hefur frá því í gær unnið að smitrakningu og öðrum lýðheilsuaðgerðum eftir að upp kom tilfelli berklasmits á Fáskrúðsfirði.
Aðeins eitt staðfest tilfelli er hér um að ræða en viðkomandi fékk greiningu og meðhöndlun í kjölfarið á Heilsugæslunni í Fjarðabyggð að höfðu samráði við smitsjúkdómalækna á Landspítalanum.
Unnið er að því að hafa samband við alla þá sem hafa verið í samskiptum við hinn smitaða að undanförnu en berklar smitast milli manna með loftbornu smiti um öndunarfæri. Þaðan getur bakterían borist um allan líkamann með blóðrásinni og hreiðrað um sig nánast hvar sem er. Oftast nær er sýkingin þó fyrst og fremst í lungum sem veldur gjarnan langvarandi hósta, takverk og eftir atvikum blóðlituðum uppgangi.