Skip to main content

Heljarinnar tjón á slökkvistöðinni á Hrauni

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 26. sep 2022 14:03Uppfært 26. sep 2022 14:04

Mikið tjón varð á slökkvistöðinni á Hrauni, við álverslóðina á Reyðarfirði, þar sem hurðir og veggplötur sprungu af húsinu. Vaktþjónustu hefur verið komið í skjól hjá björgunarsveitinni á Reyðarfirði.


„Það sprungu inn hurðir á norðurgafli hússins, þeirri hlið sem vissi upp í vindinn. Síðan fór hluti af veggnum hinu megin,“ segir Sigurjón Valmundsson, slökkvistjóri í Fjarðabyggð.

Hann segir að sem betur fer hafi enginn verið í bílasalnum þegar hurðirnar fóru af. Sex fuku alveg af og sú sjöunda skemmdist. Slökkviliðs- og sjúkraflutningafólk sem var á vakt á húsinu kom sér í skjól í hamaganginum.

„Það var vont veður og síðan var fjandinn laus. Það var heilmikið havarí þegar þetta gerðist en fólk hélt síðan til í þeim hluta hússins sem var alveg öruggur.“

Síðdegis í gær og í nótt var ekki vakt í húsinu. Henni hefur verið komið fyrir til bráðabirgða í Þórðarbúð, húsi björgunarsveitarinnar Ársólar á Reyðarfirði. „Við gátum haldið okkar lágmarksviðbragði svo þetta hafði ekki áhrif á útkallsgetuna.“

Allt kapp er nú lagt á að loka slökkvistöðinni, síðan verða frekar viðgerður metnar. Einhverjar skemmdir urðu innandyra á veggjum og hurðarköntum í þrýstingnum og víða voru pappírar og fleira á tjá og tundri.

Beyglur má sjá á bifreiðum slökkviliðsins, sem jafnast annast sjúkraflutninga í Fjarðabyggð. Rúða brotnaði í tækjabíl og þriðja sjúkrabílnum.

Myndir: Slökkvilið Fjarðabyggðar/Finnur

1000000075001 Web
1000000081001 Web
1000000155 Web
1000000156 Web
1000000157 Web
1000000158 Web
1000000159 Web
1000000160 Web