Skip to main content

HEF veitur dæmdar til að greiða fyrrum framkvæmdastjóra vangoldin laun og miskabætur eftir uppsögn

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 29. apr 2025 11:04Uppfært 06. maí 2025 14:43

HEF veitur hafa verið dæmdar til að greiða fyrrum framkvæmdastjóra fyrirtækisins, 10 milljónir króna auk dráttarvaxta í laun á uppsagnarfresti vegna ólögmætrar riftunar auk miskabóta fyrir ósannaðar ávirðingar sem á hann voru bornar samhliða starfslokum. Landsréttur hafnaði nær öllum málsástæðum HEF og snéri þar með við að miklu leyti dómi Héraðsdóms Austurlands.


Framkvæmdastjóranum var í lok júlí árið 2019, að loknum stjórnarfundi tilkynnt um að stjórn hefði ákveðið að nýta uppsagnarákvæði í samningi hans. Gert var ráð fyrir að framkvæmdastjórinn sinnti verkefnum fyrir félagið út sex mánaða uppsagnarfrest.

Stjórn skipti hins vegar um gír seinni part ágúst og óskaði eftir að framkvæmdastjórinn skilaði fartölvu og öðrum munum sem hann hafði aðgang að sem stjórnandi í fyrirtækinu. Virðist það hafa verið í kjölfar þess að hann sat ekki stjórnarfund sem hann hafði áður samþykkt að sitja en í millitíðinni hafði hann fengið læknisvottorð fyrir veikindaleyfi. Mikilvægustu mununum skilaði hann degi of seint en nokkrum minni ekki fyrr en í nóvember, að lokinni frekari yfirferð. Stjórnin ákvað í október að rifta ráðningarsamningnum með öllu og svipta framkvæmdastjórann þar með launum á uppsagnarfresti.

Framkvæmdastjórinn, Páll Breiðfjörð Pálsson, stefndi félaginu fyrir dóm. Dómur Héraðsdóms féll sumarið 2023 og var að mestu leyti HEF í hag. Páll áfrýjaði dóminum til Landsréttar en HEF veitur gagnstefndu. Sá dómur féll nýverið.

Uppsögnin sjálf lögleg


Páll vildi í fyrsta lagi meina að uppsögnin hefði verið ólögleg. Hún hefði verið órökstudd og andmælaréttar ekki gætt. Það er í raun eina atriðið sem féll HEF í vil í Landsrétti sem benti á uppsagnarákvæði í ráðningarsamningi. Rétturinn vísar þó til þess að meginregla vinnumarkaðsréttar sé að veittar séu áminningar og ekki gripið til brottvikningar nema verulegar vanefndir séu á. Í stuttu máli sagt þá telur rétturinn að svo sé ekki.

Út úr dómunum má lesa að helstu ástæður stjórnar HEF fyrir uppsögninni hafi verið að vinna við ljósleiðaralagningu í sveitum sveitarfélagsins, Fljótsdalshéraðs, sem á þessum tíma stóð eitt að HEF, hafi gengið hægt. Framkvæmdastjórinn svaraði á móti að stjórnin bæri sjálf ábyrgð á töfum, meðal annars með því að undirfélag til að sjá um ljósleiðaravæðinguna var ekki stofnað fyrr en í mars 2019.

Við riftunina voru tíndar til ýmsar athugasemdir við starfshætti framkvæmdastjórans. Má þar nefna að hann hefði bakað félaginu milljóna tjón með seinagangi við gjaldskrárhækkanir, að hafa keypt efni til ljósleiðaravæðingar án heimildar, ofreiknað sér dagpeninga, ekki skilað öllum munum, nýtt fjármuni HEF til eigin nota og eytt mikilvægum gögnum af tölvu sinni. Þá kvartaði stjórnin til Persónuverndar yfir myndavél sem fannst úti í glugga á skrifstofu framkvæmdastjórans, án þeim forsendum að hann hefði stundað upptökur án heimildar.

Heimilt að vinna innan kostnaðaráætlunar


Héraðsdómur Austurlands komst að þeirri niðurstöðu á sínum tíma að stjórninni hefði verið heimilt að rifta ráðningarsamningnum tafarlaust á þeirri forsendu að framkvæmdastjórinn hefði farið út fyrir heimildir með kaupum á efni til ljósleiðaravæðingar upp á 50 milljónir króna. Byggði það meðal annars á framburði stjórnarmanna sem töldu enga heimild hafa verið til kaupanna. Framkvæmdastjórinn svaraði að margra mánaða bið hefði verið eftir slíku efni og hann gengið í að útvega það eins og kostur var.

Landsréttur túlkar þetta atriði á annan hátt. Rétturinn vísar til þess að legið hafi fyrir kostnaðaráætlun í verkið upp á 112 milljónir króna. Þá hafi á fundi stjórnar í maí verið bókað að framkvæmdastjórinn væri að vinna að efniskaupunum. Landsréttur lítur því svo á að framkvæmdastjórinn hafi starfað innan heimilda. Þá hafi ekkert komið fram um að efnið sem keypt var hafi ekki nýst eða muni ekki nýtast fyrirtækni né að gjörðir hans hafi stangast á við reglur um opinber innkaup, eins og HEF hélt fram.

Stjórnin taldi fyrirtækið hafa orðið af um 14 milljónum króna í tekjur vegna tafa af hálfu framkvæmdastjórans við hækkun gjaldskrár um áramótin 2018/19. Hann benti á móti á að slíkar hækkanir tækju lengri tíma en svo að ákvörðun samþykkt á stjórnarfundi 6. desember raungerðist um áramót. Hún þyrfti staðfestingar á fleiri stöðum. Þá hefði að lokum farið svo þegar leið á árið 2019 að hætt var við gjaldskrárhækkunina.

Takmarkaðar sannanir fyrir ávirðingum HEF


Varðandi oftekna dagpeninga þá sagði í ráðningarsamningnum að framkvæmdastjóranum bæri að framvísa reikningum vegna ferðalaga. Þó var honum sagt við undirritunina að notast væri við samning fyrri framkvæmdastjóra, þar sem greitt var fyrir ferðir í formi dagpeninga eða eftir reikningi. Fyrri framkvæmdastjóri HEF var viðstaddur undirritunina og staðfesti þann framburð. Sá staðfesti einnig fyrstu reikninga arftaka síns. Landsréttur taldi Pál því hafa reiknað dagpeningana í góðri trú.

Hann sagði myndavélina umdeildu hafa verið ætlaða til notkunar á starfsstöð HEF en í ljós komið að hún hentaði ekki í verkið. Hún hefði síðan dagað uppi á skrifstofu hans, án minniskorts eða annarra tenginga. Landsréttur sagði HEF ekkert hafa hrakið af þeirri frásögn og engin athugasemd var gerð af hálfu Persónuverndar.

Framkvæmdastjórinn neitaði að hafa eytt gögnum sem skiptu máli og vísaði reyndar nýjum framkvæmdastjóra á sum þeirra eftir að samningnum var rift. Hann bætti við að sum þeirra gagna sem stjórnin taldi vera til hefðu aldrei orðið til því ljósleiðaraverkefnið væri skammt á veg komið. HEF lagði ekki fram lista yfir þau gögn sem vantaði af tölvunni – og reyndar virðist það hafa verið Páll sjálfur sem vísaði fyrirtækinu á tölvufyrirtækinu sem aðstoðað gæti við gagnaleit.

Þá gagnrýndi Landsréttur að ekki lægi fyrir yfirlit um hvaða hluti úr eigu HEF framkvæmdastjórinn ætti að hafa tekið og eignað sér. Landsréttur snéri einnig við niðurstöðu héraðsdóms um sönnun á matarkostnaði. Framkvæmdastjórinn sagði um að ræða kostnað við fundi með starfsfólki og viðskiptavinum. Fyrir héraðsdómi lagði hann fram skýringar á þeim 22 matarúttektum sem HEF gerði athugasemdir við. Heildarupphæð krafna HEF þar nam 115 þúsund krónum og taldi héraðsdómur að skýring hefði fengist á rúmum 22 þúsund krónum en dæmdi Pál til að greiða afganginn. Landsréttur sagði að ekki hefði verið farið yfir þau atriði sem út af stæðu og bæri HEF ábyrgð á að sanna að þar hefðu átt sér stað brot.

Ekkert sem réttlætti riftun


Niðurstaða Landsréttar var að ekkert þeirra atriða sem á framkvæmdastjórann voru borin, hvorki stök né saman, hefðu réttlætt riftun samnings. HEF var því dæmt til að greiða honum um 10 milljónir króna, auk dráttarvaxta, í vangreidd laun á uppsagnarfresti. Rétturinn hafnaði hins vegar kröfu Páls um frekari bætur vegna riftunar og taldi hann ekki hafa sýnt fram á tjón yfir lengra tímabil.

Hins vegar voru honum dæmdar 800 þúsund krónur í miskabætur fyrir ávirðingar HEF sem hefðu verið alvarlegar, meiðandi og til þess fallnar að valda honum álitshnekki. HEF var að auki dæmt til að greiða málskostnað á báðum dómsstigum, alls þrjár milljónir króna. Þá var framkvæmdastjórinn sýknaður af öllum kröfum í gagnsök HEF.

Héraðsdómur Austurlands dæmdi HEF á sínum tíma til að greiða Páli tæpa eina milljón króna. Var þar um að ræða laun frá ágúst fram í október, að frádregnum kostnaði sem dómurinn taldi hann hafa ekki haft heimild fyrir. Héraðsdómur taldi HEF hafa verið heimilt að skuldajafna kostnaðinn á móti launum á uppsagnarfresti. Með dómi Landsréttar er fyrri dómi því að miklu leytið snúið við.

Í fyrstu útgáfu fréttarinnar var sagt að framkvæmdastjórinn hefði lagt fram kvittanir á 22 af 88 matarúttektum. Það var ekki rétt. Sá kafli fréttarinnar hefur verið leiðréttur með útskýringu og samhengi.