Skip to main content

Hafa áhyggjur af almenningssamgöngum til Borgarfjarðar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. apr 2025 11:03Uppfært 25. apr 2025 11:03

Innviðaráðuneytið skoðar nú hvort hægt sé að leysa úr þeim aðstæðum sem upp eru komnar á Borgarfirði eystri eftir að Vegagerðin hætti stuðningi við almenningssamgöngur til staðarins. Fulltrúi sveitarstjóra segir stöðugleika vera lykilinn að almenningssamgöngum.


Samningur Vegagerðarinnar við akstursverktaka rann út um síðustu áramót. Vegagerðin hafði með nokkrum fyrirvara tilkynnt að samningurinn yrði ekki endurnýjaður og gaf meðal annars þær skýringar að fáir farþegar væru á leiðinni og akstur innan sveitarfélaga væri ekki á ábyrgð hennar heldur sveitarfélaga.

Verkefnisstjóri samgönguáætlunar og almenningssamgangna hjá innviðaráðuneytinu kom inn á fund heimastjórnar í mars til að ræða stöðuna. Alda Marín Kristinsdóttir, fulltrúi sveitarstjóra, segir að fulltrúinn hafi veitt þær upplýsingar að í ráðuneytinu sé verið að fara yfir ákveðnar leiðir á Austurlandi og Vestfjörðum.

Hún segir að málið sé ekki komið lengra en heimastjórnin hafi meðal annars velt því upp hvort Vegagerðinni sé ekki skylt að styðja við leiðina, í ljósi þess sem segi bæði í byggðaáætlun og samgönguáætlun um að styrkja eigi samgöngur til dreifðari byggða.

Ekki beðið um aukna þjónustu heldur áreiðanleika


Akstursverktakinn sinnir áfram verkefnum fyrir aðra umbjóðendur, svo sem flutningafyrirtækin, en Alda Marín segir að uppsögnin þýði að ferðirnar séu ekki lengur jafn áreiðanlegar og áður. Þannig séu engar ferðir á mánudögum og jafnvel aðra daga séu engar sendingar. Áður voru ferðir alla virka daga þar sem farið var frá Borgarfirði að morgni og komið aftur þangað um hádegi.

„Þetta veikir almenningssamgöngur því þær þurfa að vera áreiðanlegar og á ákveðnum tímum. Hættan er að þetta grafi líka undan flutningi því fólk finnur sér þá aðrar leiðir til að koma vörum eða fólki á milli.“

Heimastjórnin gagnrýnir rökstuðning Vegagerðarinnar að ekki megi flytja varning með þeim ferðum sem hún styrki. „Þessi leið hefur var ekin með þessum hætti og fyrst nú var þetta orðið vandamál,“ bætir Alda Marín við.

„Það er ekki verið að biðja um aukna þjónustu heldu viðhalda þjónustu sem hentaði flutningsaðila, fyrirtækjum og íbúum,“ segir hún að lokum.