Hægt að verja frystihúsið á Seyðisfirði

Sérfræðingar Veðurstofu Íslands telja hægt að byggja upp þannig mannvirki að hægt sé að verja frystihús Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði fyrir helstu ofanflóðum. Önnur atvinnusvæði er erfiðra að verja að ráði þótt hægt verði að draga úr áhættunni.

Þetta kom fram á fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, loftslags- og orkumálaráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar, innviðaráðherra, sérfræðinga Veðurstofunnar og Ofanflóðasjóðs með sveitarstjórn og embættismönnum Múlaþings fyrir rúmri viku.

Þar voru kynnt drög að niðurstöðu vinnu Veðurstofunnar fyrir umhverfisráðuneytið um atvinnusvæði á hættusvæði C gagnvart ofanflóðum. Samkvæmt núverandi reglum á að verja eða kaupa upp íbúðahúsnæði á slíkum svæðum. Slíkar reglur eru ekki í gildi fyrir atvinnuhúsnæði.

Frystihúsið verði á hættusvæði B


Bæði í norðan- og sunnanverðum Seyðisfirði eru atvinnusvæði á hættusvæði C. Eftir aurskriðurnar í desember 2020 hefur umræða um staðsetningu athafnasvæðis Síldarvinnslunnar aukist enda féllu skriðurnar þar skammt frá og fyrirtækið skiptir atvinnulíf staðarins miklu máli.

Í dag er ysti hluti frystihússins á hættusvæði C. „Það eru nýjar fréttir að hægt sé að verja frystihúsið þannig það yrði allt á hættusvæði B, óháð því hvers konar ofanflóð er um að ræða. Til þessa hefur ekki verið talið hægt að verja það meira en er,“ segir Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings. Hann segist hafa látið stjórnendur Síldarvinnslunnar vita um niðurstöðurnar.

Fiskimjölsverksmiðjan og annað húsnæði þar fyrir utan yrði áfram á hættusvæði C, þótt hægt yrði að reisa einhverjar varnir. „Það er mjög erfitt að verja það svæði fyrir öllum mögulegum ofanflóðum. Það eru til skoðunar einhvers konar varnir en þær myndu ekki duga til að færa byggingarnar af hættusvæði C á B.“

Ekkert liggur frekar fyrir um hvernig varnirnar eru útfærðar eða hvenær yrði farið í þær. Forgangsatriði er að verja íbúabyggð og því á að vera lokið fyrir árið 2030. „Útfærslan er ekki komin. Það er búið að teikna upp einhvert líkan sem við höfum ekki séð enn og eftir að vinna frekari gögn.“

Atvinnusvæði undir Bjólfi


Í norðanverðum firðinum er atvinnusvæði undir Bjólfi. Þar eru miklar framkvæmdir í gangi við snjóflóðavarnir en hæpið er að hægt sé að bæta miklu við utan þeirra. „Það er hægt að verja heldur meira svæði undir Bjólfi en ráð var fyrir gert þótt það sé takmarkað umfram það sem þær varnir sem nú eru fyrirhugaðar taka.“

Von er á drögum að skýrslunni í samráðsgátt stjórnvalda innan tíðar. „Það er jákvætt að farið sé að stað með að skoða varnir fyrir atvinnusvæðin sem ekki hafa verið skoðuð til þessa. Að hægt sé að verja þau er lykilatriði fyrir áframhald samfélaganna á þessum stöðum.“




 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.